Tilfallandi hlustaði ekki á eldhúsdagsumræðurnar um daginn. Stjórnmálafræðingur í barnaafmæli sagði honum í óspurðum að samhljómur hefði verið með Kristrúnu Frosta og Sigmundi Davíð og nefndi ríkisfjármál og útlendingafárið.
Flokkarnir tveir eru olía og vatn, sagði tilfallandi og gaf pælingunni fyrsta kastið ekki meiri gaum. Engu að síður, ólíkleg þróun gæti orðið raunhæf. Þótt enn sé ár til loka kjörtímabils má með fyrirvara slá fram eftirfarandi:
A. Ekki verður framhald á sitjandi ríkisstjórn.
B. Vinstristjórn er ekki dagskrá.
C. Vinstri grænir verða í stjórnarandstöðu, nái þeir inn á þing.
D. Viðreisn og Píratar eru óstjórntækir.
E. Sjálfstæðisflokkur fær útreið, spurningin er hve slæma.
F. Framsókn gerir ekki meira en halda í horfinu.
G. Aðeins tveir flokkar sækja í sig veðrið síðustu misseri, Samfylking og Miðflokkur.
Til skamms tíma var líklegt að Samfylking og Miðflokkurinn yrðu í samkeppni um að komast í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki. Þriðja hjólið yrði Framsókn, ef á þyrfti að halda. Tilfallandi skrifaði á þessum nótum í apríl.
Eina breytu tók tilfallandi ekki með í reikninginn. Hún virðist gera sig gildandi undanfarið. Margur sjálfstæðismaðurinn telur flokkinn sinn þegar alltof kratískan og hrýs hugur stjórn með Samfylkingunni. Það er vatn á myllu Miðflokks. Verulegt vatnsmagn að virðist; Sjálfstæðisflokkur mælist nú 15 prósent. Landsstjórn tveggja krataflokka skorar ekki hátt á vinsældarlista hægrimanna.
Sterk Samfylking veldur atkvæðaflótta frá Sjálfstæðisflokki til Miðflokks. Sjálfstæðismenn treysta Sigmundi Davíð betur en Bjarna Ben. að höndla hægpólitík í næstu ríkisstjórn, sem að líkindum verður með Samfylkingu innanborðs. Óvissa um hvort Bjarni haldi áfram í pólitík léttir ekki Valhallarmönnum róðurinn.
Samfylking og Miðflokkur mælast samtals með 40 prósent fylgi. Ekki vantar mikið upp á að tveggja flokka ríkisstjórn sé stærðfræðilegur möguleiki. Sjálfkrafa er tveggja flokka stjórn fremur á vetur setjandi en þriggja.
Ef samstjórn Samfylkingar og Miðflokks verður þekkileg nægilega mörgum gæti fræðilegur möguleiki orðið raunhæfur.
Reiknikúnstir eru eitt en pólitík annað. Enn á eftir að manna framboðslista og kosningabarátta breytir iðulega gangverki umræðunnar. Miðsumarshugrenningar um stjórnmál lifa ekki allar til að fá haustliti.