„Ríkisstjórnin búin að gefast upp og yfirgefa Alþingi til þess að sinna öðru“

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sneri aftur á Alþingi í gær eftir fæðingarorlof. Hún kvaddi sér hljóðs við upphaf þingfundar og gagnrýndi forystuleysi ríkisstjórnarinnar í þeim málum sem helst brenna á fólkinu í landinu. Nefndi hún í því samhengi verðbólgu, vexti, verkföll og alvarlegan vanda í húsnæðismálum.

Þá kallaði Kristrún eftir því að forystufólk ríkisstjórnarinnar kæmi á Alþingi í vikunni til að sitja undir svörum þingmanna um þessi mál. Sagði hún að forysta í alþjóðamálum gæti ekki komið í stað forystu í innanlandsmálum.

„Virðulegi forseti. Hvað er í gangi hjá hæstvirtri ríkisstjórn? Af hverju er enginn hérna að taka á þeim málum sem virkilega brenna á?“

Skraut Kristrún föstum skotum að ríkisstjórninni og sagði að það væri eitt að láta sig alþjóðamálin varða í vikunni en að ráðherrar hlytu að gera sér grein fyrir því að slíkt kom ekki í staðinn fyrir að sýna forystu hér heima í innanlandsmálum. Fólkið í landinu væri að bíða eftir aðgerðum.

„Nú er ég snúin aftur úr fæðingarorlofi og sé á dagskrá Alþingis að það er ekkert að gerast. Lítið á dagskrá, þingfundum er frestað. Og ég ætlaði að eiga hér orðastað við eitthvert af forystufólki ríkisstjórnarinnar — en ekkert þeirra ætlar einu sinni að láta sjá sig hér á Alþingi í vikunni og sitja undir svörum.“

Nefndi Kristrún nokkur mál sem ríkisstjórnin þyrfti að svara fyrir

„Til dæmis um verðbólgu, vexti, verkföll, húsnæðismál. Enda virðist þeim í raun líða best á meðan pólitísk umræða hverfist um mál sem snúa ekki að veruleika venjulegs fólks. Þó að efnahags- og velferðarmálin séu efst í huga fólks þessa dagana.“

Hún sagði að svo virtist vera að ríkisstjórnin hefði hreinlega gefist upp, yfirgefið Alþingi og stóru efnahags og velferðarmálin til þess að sinna einhverju allt öðru.

„Ég vil því fara þess á leit við hæstvirtan forseta að óundirbúnar fyrirspurnir, með einhverjum af leiðtogum ríkisstjórnarflokkanna, verði settar á dagskrá síðar í vikunni“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila