RÚV fær rúmlega átján milljóna styrk frá Reykjavíkurborg

Meirihlutinn í borgarstjórn samþykkti á borgarstjórnarfundi í fyrradag að veita RÚV styrk upp á rúmlega átján milljónir á grundvelli samstarfs- og styrktarsamnings íþrótta og tómstundaráðs við Ríkisútvarpið ohf.

Í fundargerð kemur fram að styrkurinn er ætlaður til dagskrárgerðar ungs fólks hjá RÚV. Samningurinn var samþykktur með sautján atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Viðeisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna gegn sex atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram bókun á fundinum þar sem styrkveitingin er gagnrýnd en í bókuninni segir

„Rétt er að benda á að RÚV ber að auka framleiðslu á íslensku efni fyrir börn samkvæmt þjónustusamningi RÚV og menntamálaráðuneytisins. Því hefði verið réttara hefði verið að fara í útboð/verðfyrirspurn og kanna áhuga annarra sjónvarpsstöðva til að taka verkefnið að sér eða öðrum fjölmiðlum. Þá vekur athygli að hér er ekki um þjónustukaup að ræða heldur er skóla- og frístundaráð að styrkja RÚV ohf. Ekki liggja fyrir skýrar talningar um áhorf á efnið sem framleitt hefur verið hingað til, það er á grundvelli fyrri samnings við RÚV sem nú stendur til að endurnýja.“

Deila