RÚV sagði ósatt í afsökunarbeiðni vegna starfsmanns sem ætlaði inn í hús í Grindavík

Ljósmyndarinn Ragnar Visage er sá sem reyndi að komast inn í húsið

RÚV sagði að hluta til ósatt í afsökunarbeiðni sem stofnunin sendi frá sér í kjölfar þess að myndband var birt á samfélagsmiðlinum Facebook þar sem ljósmyndari á vegum RÚV sést reyna að komast inn í eitt af yfirgefnum húsum bæjarins án leyfis. RÚV sagði að um misskilning væri að ræða en starfsmaðurinn sem um ræðir sagði í samtali við Útvarp Sögu að ekki væri um neinn misskilning að ræða heldur kolranga ákvarðanatöku.

Eigandi hússins birti myndbandið og furðaði sig á þessu háttarlagi ljósmyndarans og varaði aðra íbúa við. í kjölfarið fór myndbandið á flug á samfélagsmiðlum sem varð til þess að RÚV sendi frá sér afsökunarbeiðni þar sem sagt var að atvikið byggði bæði á misskilningi og óðagoti.

Skýringar RÚV á atvikinu virðast þó ekki að öllu leyti sannar því ljósmyndarinn sem um ræðir, Ragnar Visage steig fram í viðtali við fréttavefinn mbl.is í gær þar sem hann greindi frá atvikinu. Ragnar sagði í viðtalinu frá því að honum hafi á þeim tímapunkti sem atvikið átti sér stað fundist það rétt ákvörðun að reyna að komast inn í húsið og þegar það gekk ekki leitaði hann að lykli að húsinu í stórum kertastjaka utan við húsið. Hins vegar segir Ragnar að honum hafi þótt eftir á að ákvörðun hans hafi verið röng.

Ekki er að sjá á ummælum ljósmyndarans að um nokkurn miskilning hafi verið að ræða eins og RÚV heldur fram í afsökunarbeiðni sinni heldur sé um að ræða ranga ákvarðanatöku sem megi mögulega rekja til nokkurs konar óðagots af hálfu Ragnars.

Ragnar staðfesti í samtali við Útvarp Sögu í dag að ekki hefði verið um neinn misskilning að ræða heldur kolranga ákvarðanatöku undir mikilli pressu við að ná myndefni. Hann hafi haft veður af því að í þessari götu hafi verið mikið af sprungum og skemmdum húsum og gekk því að húsinu þar sem hann tók hina örlagaríku ákvörðun.

„þetta var bara stress á mér sko og skrifast náttúrulega á engan annan en mig að taka kolranga ákvörðun í aðstæðum sem að eru bara mjög einkennilegar að vera þarna nánst einn í bæ sem er allur að gliðna í sundur og þarna er mikil pressa á manni að ná efni“ segir Ragnar.

Hann segir að hann hafi ítrekað beðið björgunarsveitamenn afsökunar sem hafi skiljanlega alls ekki verið ánægðir með hans framgöngu og þá sé hann búinn að biðja íbúa hússins einnig afsökunar á atvikinu.

RÚV tilkynnti málið til lögreglu

Ragnar segir að í kjölfar atviksins að RÚV hafi haft samband við lögreglu og látið vita að atvikið hefði átt sér stað því það sé mikill vilji að vera i góðu samstarfi við viðbragðsaðila.

Þá segir Ragnar að verið sé að skerpa á öllum verkferlum og vinnubrögðum í kjölfar málsins.

„það er verið að skerpa á því að allir séu meðvitaðir hvernig við eigum að bera okkur að í viðkvæmum aðstæðum sem þessum því þarna er fólk auðvitað í sárum og við þurfum virkilega að vanda okkur og ég hef lært af atvikinu“segir Ragnar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila