Sameiginlega viðbragðssveitin æfir eftirlit með mikilvægum neðansjávarinnviðum

Sameiginlega viðbragðssveitin (Joint Expeditionary Force, JEF) hóf í vikunni mánaðarlanga æfingu undir heitinu Nordic Warden sem felur í sér aukið eftirlit með mikilvægum neðansjávarinnviðum í Norður-Evrópu. Verkefnið er hluti af viðbragðsáætlunum JEF og fylgir á eftir svipaðri æfingu frá því í desember síðastliðnum.

Skip, flugvélar og liðsafli frá þátttökuríkjum JEF munu hafa eftirliti með mikilvægum neðansjávarinnviðum og stunda æfingar víðsvegar í Norður-Atlantshafi og Eystrasaltinu en aðgerðum er stýrt frá höfuðstöðvum JEF í Northwood í útjaðri London. Í höfuðstöðvunum í Northwood leggur Ísland til borgaralega sérfræðinga á sviði upplýsingamála frá utanríkisráðuneytinu og Landhelgisgæslunni sem sjá um að samhæfa upplýsingamiðlun vegna æfingarinnar. 

Neðansjávarinnviðir á borð við fjarskiptastrengi og orkuleiðslur eru grundvallarstoðir í efnahagslífi ríkja í Norður-Evrópu og rof á þessum mikilvægu innviðum sem tengja ríkin saman hefði mikil áhrif á daglegt líf fólks. Æfingin leiðir saman getu allra tíu þátttökuríkjanna til að fylgjast með skipaumferð nálægt mikilvægum neðansjávarinnviðum og samhæfa greiningu og viðbragð við óvenjulegum eða grunsamlegum athöfnum í grennd þeirra. 

Æfingin sýnir með áþreifanlegum hætti framlag JEF-samstarfsins til öryggismála í Norður-Evrópu með því að leiða saman getu ríkjanna  í samhæfðum aðgerðum. Æfingin fer fram í samstarfi við Atlantshafsbandalagið sem einnig sinnir sambærilegum verkefnum á Norður-Atlantshafi og Eystrasaltssvæðinu.

JEF er samstarfsvettvangur líkt þenkjandi Norður-Evrópuríkja, Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna, Bretlands og Hollands, um öryggis- og varnarmál með áherslu á norðurslóðir, Norður-Atlantshafið og Eystrasaltið. Samstarfinu er ætlað að tryggja skjót viðbrögð við hvers kyns aðstæðum og styðja við annað fjölþjóðasamstarf, svo sem á vegum Atlantshafsbandalagsins. Þátttökuríkin eiga jafnframt reglubundið og virkt öryggispólitískt samráð. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila