Samfélagið þarf að taka á hnífaburði og ofbeldi hjá börnum og ungmennum

Sú staða að börn og ungmenni séu farin að ganga um með hnífa á sér og jafnvel beita þeim eins og dæmi eru um mjög alvarleg mál. Mjög alvarlegar fréttir um afleiðingar af hnífaárásum frá menningarnótt segja til um hversu alvarleg staðan er. Það þarf í raun og veru að vera allt samfélagið sem tekur á þessum málum í sameiningu. Þetta segir Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamála­ráðherra en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu sem hlusta má á í spilaranum hér að neðan.

Ríkissjórnin ræddi í morgun um þessi alvarlegu ofbeldismál í ljósi nýustu mála

Ásmundur Einar segir að fundað hafi verið um þessi mál í ríkisstjórninni í morgun og þeirri alvarlegu stöðu sem er komin upp og í ljósi nýjustu mála. Ríkisstjórnin hafi farið yfir þær aðgerðir sem þegar hafi verið settar af stað til þess að sporna við þessari þróun. Samfélagið allt þurfi að vera samtaka í því að takast á við þennan veruleika því hann sé ekki bara að birtast hér á landi heldur einnig í nágrannalöndunum, meðal annars hafi nýlega komið upp slíkt mál í Bretlandi.

Ofbeldishneigð ungmenna bendir til mikillar vanlíðan

Ásmundur Einar segir ef eitthvað samfélag geti tekið á hnífaburði og ofbeldi meðal barna og ungmenna þá sé það einmitt lítið samfélag eins og Ísland. Hann segir að þegar svona ástand sé orðið svona útbreitt verður að skoða hvað býr að baki. Til að mynda sé menningin að breytast og þá eru þau börn sem geri þetta í greinilegri og mikilli vanlíðan. Ásmundur segist vel meðvitaður um þessa þróun og því hafi hann og dómsmálaráðherra nú í júní kynnt fjórtán aðgerðir sem eiga að vera skref í því að sporna við þróuninni.

Samfélagslögreglan fer á milli skóla og félagsmiðstöðva

Við höfum verið að efla svokallaða samfélagslögreglu sem fari á milli skóla og félagsmiðstöðva og ræði við börn og ungmenni. Þá segir Ásmundur mjög mikilvægt að foreldrar komi einnig að málum, séu meðvitaðir um hvað börn þeirra séu að aðhafast. Þá sé ekki síður mikilvægt að foreldrar gefi sér tíma til þess að vera með börnum sínum og verði þeim góðar fyrirmyndir. Það sé of mikið um það að foreldrar eyði of miklum tíma í símanum.

Þarf að hraða aðgerðum

Ásmundur Einar segir að nú sé verið að skoða hvort hægt sé að hrinda þeim aðgerðum sem á að fara í vegna stöðunnar hraðar í framkvæmd enda hafi þessi slæma þróun gerst mjög hratt.

Hlusta má á ítarlegri umræður í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila