
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, kynnti á blaðamannafundi sem haldinn var í Mjódd í dag nýtt útspil Samfylkingarinnar í heilbrigðis og öldrunarmálum.
Í tilkynningu segir að um sé að ræða afrakstur af málefnastarfi undanfarna sex mánuði þar sem öll athygli flokksins hefur beinst að heilbrigðis- og öldrunarmálum. Farið var í málefnavinnuna í ljósi nýrrar nálgunar sem lögð var upp á flokksstjórnarfundi í Hafnarfirði í vor.
Öruggu skrefin í heilbrigðis- og öldrunarmálum eru þessi
Fimm þjóðarmarkmið:
- Fólk fái fastan heimilislækni og heimilisteymi
- Þjóðarátak í umönnun eldra fólks
- Öruggt aðgengi um land allt
- Meiri tími með sjúklingnum
- Tökum ábyrgð á heilbrigðiskerfinu í heild
„Þetta er tveggja kjörtímabila vegferð – fimm þjóðarmarkmið og örugg skref í rétta átt. Áherslurnar eru sóttar til almennings — á hátt í 40 opnum fundum um land allt. Og svo höfum við átt annað eins af fundum á vinnustöðum, með fólkinu af gólfinu og öðrum sérfræðingum um heilbrigðismál. Þetta veitir okkur styrk og fullvissu,“ sagði Kristrún á fjölmiðlafundi í Mjódd í dag við kynningu á útspilinu.
Svona ætlar Samfylkingin að fjármagna verkefnið
- Samfylkingin stefnir að því að auka fjárframlög til heilbrigðis- og öldrunarmála í skrefum til að styrkja kerfið og standa undir þjóðarmarkmiðunum fimm. Örugg skref í rétta átt fela í sér að á tveimur kjörtímabilum undir stjórn jafnaðarfólks muni framlög til heilbrigðis- og öldrunarmála hækka sem nemur 1-1,5% af landsframleiðslu á ársgrundvelli miðað við núverandi fjárlög. Slíkt viðbótarfjármagn mun skipta sköpum til að nýta betur það fjármagn sem nú þegar er veitt til málaflokksins.
- Ef leiðrétt er fyrir framlögum til byggingar á nýjum Landspítala þá hafa fjárframlög til heilbrigðis- og öldrunarmála staðið í stað frá árinu 2017 sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.
Örugg skref:
- Árleg fjárframlög til heilbrigðis- og öldrunarmála hækki um 1-1,5% af vergri landsframleiðslu
- Fjárframlög aukin jafnt og þétt á 8 árum — tveimur kjörtímabilum
- Fjármögnun tryggð á tekjuhlið ríkissjóðs
- Á tæpum áratug getum við sem samfélag fjármagnað þessa vegferð — meðal annars með því að:
- Draga úr misræmi milli skattlagningar fjármagns- og launatekna
- Tryggja að arður af sameiginlegum náttúruauðlindum nýtist í þágu samfélagsins alls
- Útfært nánar eftir samtal við fólkið í landinu um atvinnu og samgöngur veturinn 2023 til 2024
- Endurskoða tekjuskattskerfið með það markmið að færast nær velferðarsamfélögum Norðurlanda
Útfært nánar eftir samtal við fólkið í landinu um húsnæðis- og kjaramál frá vori fram á haust 2024
Sjá nánar í skjali hér að neðan