Samfylkingin vill fara norsku leiðina í útlendingamálum og leggst gegn 2 ára biðtíma fyrir fjölskyldusameiningu

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar greindi frá því í pontu Alþingis í dag í umræðunum um útlendingalög að Samfylkingin vilji fara „norsku leiðina“ til að taka á jaðartilvikum í útlendingamálunum auk þess sem Samfylkingin leggst gegn 2 ára biðtíma fyrir fjölskyldusameiningu fólks sem hefur fengið viðbótarvernd á Íslandi eða mannúðarleyfi – en vill þess í stað gera skilyrði um trygga framfærslu.

„í tilfellum þar sem fólk hefur sérstök tengsl við Ísland og hefur ekki þegar fengið vernd
annars staðar þá teljum við í Samfylkingunni rétt að áfram verði hægt að taka á jaðartilvikum
með því að taka mál til efnislegrar meðferðar, þó að heimilt sé að krefja annað ríki um að taka
við umsækjanda, eins og til dæmis í Dyflinnarmálum.“ sagði Kristrún og lét þau orð falla að þess vegna leggi Samfylkingin til breytingartillögu um að fara norsku leiðina.

Þá sagði Kristrún um norsku leiðina:

„þar sem áfram yrði litið til sérstakra tengsla við Ísland en ekki til sérstakra ástæðna, sem eru matskenndari og meira íþyngjandi fyrir kerfið, og þar sem þetta undanþáguákvæði myndi ekki gilda um fólk sem þegar hefur fengið vernd. Þá myndi líka „12 mánaða reglan“ falla á brott, sem kveður á um að fólk sem hefur ekki fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 12 mánaða frá því að umsókn var lögð fram fái sjálfkrafa efnislega meðferð.“

Um tveggja ára biðtíma fyrir fjölskyldusameiningu sagði Kristrún að hún stuðlaði ekki að mannúð, né skilvirkni auk þess sem hún stuðlaði alls ekki að aðlögun eða inngildingu í samfélagið.

„Kærunefnd útlendingamála hefur nú lýst sömu skoðun – og bendir á það í umsögn sinni að þeir
sem hljóta viðbótarvernd hjá Útlendingastofnun munu kæra þá niðurstöðu í auknum mæli til
kærunefndar útlendingamála í von um að geta fengið alþjóðlega vernd og þar
fjölskyldusameiningu án biðtíma. Og því er hætt við að mismunandi skilyrði milli ólíkra
verndarflokka auki á flækjustig og álag í stjórnsýslu verndarkerfisins, þvert á yfirlýst markmið
frumvarpsins.“ sagði Kristrún.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila