Samgöngusáttmálinn kann að vera mjög fallegt og gott plagg en það hefur því miður verið lenska hjá og mörgum stjórnmálamönnum hér á landi að framkvæma ekki það sem þeir segjast ætla að framkvæma. Þetta segir Guðmundur Árni Stefánsson bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og varaformaður Samfylkingarinnar en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu sem hlusta má á í spilaranum hér að neðan.
Guðmundur Árni bendir á að það séu fimm ár frá því sáttmálinn hafi fyrst verið undirritaður og á þessum fimm árum hafi nú bara ósköp lítið gerst af því sem þar er tíundað. Hann bendir á að framkvæmdir á heimasvæði hans þ.e. framkvæmdir við Reykjanesbraut hafi verið færðar fimm ár fram í tímann. Þetta þýði einfaldlega að menn munu þá aðeins teikna framkvæmdina upp og velta henni fyrir sér án þess að nokkuð muni gerast á næstu fimm árum.
Samfylkingin vill virkja
Guðmundur Árni segir að það sama sé hægt að segja um aðrar framkvæmdir. Hugmyndirnar eru góðar en þetta taki alltof langan tíma. Hann segir að þetta sé í anda ráðherra þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr því nú hafi sem dæmi Guðlaugur Þór verið með hverja glærusýninguna á fætur annari í umhverfis og orkumálum án þess að nokkur skapaður hlutur gerist. Guðmundur Árni segir Samfylkinguna vilja virkja en gera það með þeim hætti að ekki sé fram úr sér farið hvað skynsemina varðar. Um leið og virkjað verði þá eigi að vernda í leiðinni. Hvað vindmylluvæðinguna varðar segir Guðmundur Árni að það sé mikilvægt að þar sem vindmyllur séu reistar fái sveitarfélög á viðkomandi svæði í sinn hlut einhvern ávinning í formi tekna. Hann segist þó ekki hlynntur vindmyllugörðum með tugum vindmylla.
Loforð ráðamanna geta ýtt undir vantraust á stjórnmálamönnum
Guðmundur Árni segir að þessi eilífu loforð ráðamanna, án þess að efndir fylgi, séu farnar að valda því að fólk taki yfirleitt ósköp lítið mark á því sem stjórnmálamennirnir segja og treysta þeim hreinlega ekki.
Þá batni ástandið alls ekki þegar nú sé að bresta á kosningavetur því þá tjaldi menn öllum fögru loforðunum til eins og enginn sé morgundagurinn og svo eftir kosningar þá taki sama sagan við aftur og ekkert er gert.
Hlusta má á ítarlegri umræður í spilaranum hér að neðan