Samgöngusáttmálinn er kostnaðarsprengja sem ekki mun leysa nein vandamál og það er hreint ótrúlegt að hann hafi verið undirritaður rétt áður en þing kemur saman sem fer þó með fjárveitingarvaldið. Þetta segir Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu sem hlusta má á í spilaranum hér að neðan.
Reykjavíkurborg hefur tafið allar framkvæmdir sem tengjast umferðarflæði
Þá séu inni í samgöngusáttmálanum atriði eins og Borgarlínan sem sé ekki raunhæf lausn í samgöngumálum. Bergþór segir Reykjavíkurborg hafi frekar gert í því að tefja allar stórframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu sem tengjast umferðarflæði, frekar en að leysa hann hingað til og það muni ekkert breytast með undirritun sáttmálans.
Samgöngusáttmálinn kostar 311 milljarða núna og á eftir að hækka
Bergþór bendir á að sáttmálinn, sem áætlaður er að kosta hundruð milljarða króna, sé óskiljanlegur og hafi strax farið fram úr upphaflegum kostnaðaráætlunum. Hann varar einnig við því að framtíðarframkvæmdir tengdar borgarlínunni muni hafa enn hærri kostnað í för með sér en áætlað var, og um sé að ræða lifandi reiknisdæmi sem muni sífellt stækka fram úr hófi.
Hönnun Borgarlínunnar mun auka vandann sem fyrir er
Hvað hönnun Borgarlínunnar varðar þá komi hún ekki til með að leysa nein vandamál varðandi umferðarflæði heldur þvert á móti auka á þann vanda sem fyrir er.
Miðar að því að draga úr notkun einkabílsins
Götur verði þrengdar og akreinar teknar frá einkabílum til að hýsa borgarlínu, sem margir telja að muni skapa meiri umferðarteppur og gera ferðalög erfiðari fyrir fjölskyldur. Stefnan beinist sérstaklega gegn notkun einkabíla og ýti undir að fólk neyðist til að nota strætó, þrátt fyrir að nýting á strætisvögnum hafi verið mjög lítil síðustu ár.
Þá gagnrýnir Bergþór önnur atriði sáttmálans eins og fyrirhugaða skattlagningu á notkun einkabíla, þar sem lagt er til að taka upp tafagjöld, sem hann telur að gæti orðið umdeild ákvörðun þegar Alþingi kemur saman á ný.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan