Samgöngusáttmálinn til þess að fegra ímynd stjórnmálamanna

Samgöngusáttmálinn er aðeins tákrænn og helst til þess fallinn að fegra ímynd stjórnmálamanna frekar en að fara eftir honum og efna það sem þar er lofað. Þetta segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fyrrverandi borgarstjóri en hann var gestur Péturs Gunnlaugssonar í Síðdegisútvarpinu en hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Vilhjálmur segir sáttmálann gjörning sem hafi lítið raunverulegt innihald, þar sem hann lítur á loforðin sem eru sett fram um framkvæmdir eftir áratugi sem óréttmæt fyrirheit. Vilhjálmur bendir á að slíkar yfirlýsingar séu oft settar fram til að bæta ímynd stjórnmálamanna án þess að þær leiði til raunverulegra framkvæmda.

Þétting byggðar hefur valdið þessu umferðaröngþveiti

Hann nefnir einnig að undirbúningur þessa sáttmála hafi kostað mikla fjármuni án þess að áþreifanlegar lausnir hafi verið kynntar til að taka á brýnustu samgönguvandamálum á svæðinu. Í stað þess að leysa vandann, hafi þéttingarstefna borgarinnar, sem gengur út á að byggja meira á minna svæði, aukið á umferðarþunga. Þessi þétting byggðar leiðir til þess að fleiri bílar eru á minna svæði, sem veldur enn meiri umferðarhnútum og tafir í daglegu lífi borgarbúa.

Meirihluti borgarstjórnar hefur ekki lagt fram neinar lausnir

Vilhjálmur bendir sérstaklega á þá staðreynd að núverandi samgöngustefna og framkvæmdaleysi hafi leitt til þess að höfuðborgarsvæðið glímir við sívaxandi umferðarvandamál. Umferðarflæði hefur verið ófullnægjandi í langan tíma, og engar raunhæfar aðgerðir hafa verið kynntar til að bæta ástandið. Hann segir ástandið á götum borgarinnar vera komið í „algjört öngþveiti“ og að meirihlutinn í borgarstjórn hafi ekki lagt fram neinar lausnir til að draga úr vandanum. Umferðarvandinn á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist stöðugt og Vilhjálmur telur að án róttækra aðgerða muni ástandið einungis versna á næstu árum.

Allir stjórnmálaflokkar verða að finna lausn á umferðarvanda höfuðborgarinnar

Hann leggur áherslu á að umferðarmálin séu orðin svo slæm að daglegt líf borgarbúa, sérstaklega þeirra sem búa í úthverfum, sé verulega truflað. Þeir séu oft neyddir til að keyra lengi og eigi erfitt með að finna bílastæði í miðborginni vegna samdráttar á bílastæðum og lokunar gatna. Hann kallar eftir því að öll stjórnmálaöfl, óháð flokkslínum, vinni saman að því að finna lausnir til að bæta umferðarkerfið á höfuðborgarsvæðinu og koma á betri samgöngum á svæðinu.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila