Samræmdur mælikvarði á nám er grundvöllur framfara í öllu skólastarfi og því verður hér engin framför nema í öfuga átt ef hann er ekki til staðar. Þá verða skólar að geta fengið að sjá niðurstöðurnar úr hinum samræmda mælikvarða til þess að geta unnið úr þeim. Þetta segir Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og kennari en hún var gestur Péturs Gunnlaugssonar í Síðdegisútvarpinu sem hlusta má á í spilaranum hér að neðan.
Afar slakur árangur í lestri skerðir lífsgæði
Marta segir afar slakan árangur nemenda í lestri vera mikið áhyggjuefni. Staðreyndin sé sú að í lok grunnskóla sé það rúmlega helmingur pilta og þriðjunga stúlkna sem geti ekki lesið sér til gagns. Það að geta ekki lesið sér til gagns skerði beinlínis lífsgæði þeirra sem ekki ná að tileinka sér lestur og þar með verða þessir einstaklingar af tækifærum í lífinu.
Réttur foreldra og barna að fá að sjá niðurstöður PISA
Hún bendir á hvað varðar birtingar á niðurstöðum PISA, sem bannað sé að birta eins og staðan sé í dag, þá eigi það að vera skýlaus réttur nemenda að fá að vita hvar þeir standi í námi, auk þess sem það ætti að vera réttur foreldra að fá að vita um stöðu sinna barna.
Grunnskólinn á að skila nemendum vel undirbúna fyrir lífið og frekara nám
Marta leggur áherslu á að það séu foreldrar sem fyrst og fremst beri ábyrgð á menntun barna sinna og greiði þar að auki fyrir menntun barna sinna með sköttunum sínum. Það sé því algerlega ótækt með öllu að fólk fái ekki að vita hvar það stendur í námi. Marta segir það ekki til of mikils mælst að skólakerfið skili börnunum út í samfélagið á þann hátt að þau geti tekist á við lífið og frekara nám.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan