
Samskip hafa sent frá sér tilkynningu vegna yfirvofandi verkfalls Eflingar verði það samþykkt í atkvæðagreiðslu. Í tilkynningunni kemur fram að hjá Samskipum taki verkfallsboðunin til aksturs flutningabifreiða sem gerður er út frá höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík.
Forsvarsmenn Samskipa vonast til þess að ekki komi til verkfalls en undrast það að Efling skuli beina aðgerðum sínum að einungis einu fyrirtæki á flutningamarkaði. Atkvæðagreiðsla um verkfallið hefst á hádegi næstkomandi föstudag og stendur til klukkan 18:00 á þriðjudag. Verði boðun verkfallanna samþykkt hefst vinnustöðvun á hádegi 15. febrúar. Unnið er að því að draga úr áhrifum á þjónustu við viðskiptavini Samskipa komi til verkfalls.