Samstaða innan Atlantshafsbandalagsins um áframhaldandi öflugan stuðning við Úkraínu

Áframhaldandi stuðningur Atlantshafsbandalagsins við varnarbaráttu Úkraínu var áréttaður á þriggja daga leiðtogafundi bandalagsins, sem lauk í Washington D.C. í Bandaríkjunum í dag. Bandalagsríkin ítrekuðu jafnframt mikilvægi þess að halda áfram að styrkja fælingar- og varnarstöðu sína samhliða því að efla samvinnu við helstu samstarfsríki til mæta nýjum áskorunum. 

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sóttu fundinn fyrir hönd Íslands.  

Leiðtogarnir tóku þátt í afmælisviðburði í Mellon Auditorium á þriðjudaginn, þar sem Atlantshafssáttmálinn var undirritaður fyrir 75 árum af tólf ríkjum, þ.á.m. Íslandi. Bjarni Benediktsson, þáverandi utanríkisráðherra, skrifaði undir sáttmálann fyrir hönd Íslands í apríl árið 1949 en í dag eru aðildarríkin 32 talsins. Finnland og Svíþjóð eru nýjustu bandalagsríki Atlantshafsbandalagsins og var þetta fyrsti leiðtogafundur Svíþjóðar sem fullgilt aðildarríki.   

„Atlantshafsbandalagið er öflugra en nokkru sinni, og mikil tímamót að Norðurlöndin séu nú öll sameinuð undir merkjum þess. Styrkur okkar felst í að allir leggi sitt af mörkum, en bandalagsríkin hafa stóreflt varnargetu sína og viðhaldið öflugum stuðningi við varnarbaráttu Úkraínu. Það er enda skylda friðsamra þjóða að standa saman um að verja frið, frelsi og öryggi í okkar heimshluta þegar að þeim gildum er ráðist,“ segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. „Við Íslendingar gegnum mikilvægu hlutverki í starfsemi bandalagsins á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum, m.a. með loftrýmiseftirliti og gistiríkjastuðningi, m.a. við kafbátaleit og loftrýmisgæslu. Við höfum stóraukið framlög okkar til málaflokksins undanfarinn áratug og við ætlum að halda því áfram.“ 

Á fundinum var festur í sessi langtímastuðningur Atlantshafsbandalagsins við Úkraínu, sem felst í samræmingu á hergagnaaðstoð, þjálfun og fjárhagslegri skuldbindingu vegna varnartengdrar aðstoðar. Gert er ráð fyrir að bandalagsríkin verji að lágmarki 40 milljörðum evra til varnarstuðnings Úkraínu á komandi ári. Þá ítrekuðu leiðtogarnir að vegferð Úkraínu í átt að aðild að Atlantshafsbandalaginu yrði framhaldið. 

,,Það er ekki hægt að horfa framhjá því að öryggisástandið í Evrópu kallar á auknar varnir og viðbúnað og hefur bandalagið sannarlega brugðist við því. Veigamikill þáttur í að tryggja öryggi bandalagsins felst í getu okkar til að veita Úkraínu nauðsynlegan stuðning. Því skiptir mestu máli að þétt samstaða hafi náðst um að efla öryggisaðstoð við Úkraínu og færa þau enn nær aðild að Atlantshafsbandalaginu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. „Almennt mátti svo greina áhyggjur meðal leiðtoganna af tíðni fjölþáttaaðgerða sem Rússland stundar grimmt og öllum ríkjum bandalagsins og samstarfsríkjum þess stendur ógn af.“ 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila