Sannkölluð bolluveisla hjá Bernhöftsbakaríi

Nú styttist í bolludaginn og eru bakarar landsins í óða önn að undirbúa sig undir hann enda eru Íslendingar mikil bolluþjóð og sporðrenna þeim í miklu magni.

Í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur gafst hlustendum kostur á að hringja inn og taka forskot á sæluna og næla sér í bollur frá Bakarameistaranum og Bernhöftsbakaríi sem að vanda bjóða upp á glæsilegt úrval af bollum nú sem endra nær. Sigurður Guðjónsson formaður Landsambands Bakarameistara var gestur í þættinum og ræddi þar meðal annars um menntun bakara og fjölgun nema. Þá gaf hann hlustendum að sjálfsögðu bollur frá Bernhöftsbakaríi.

Bernhöftsbakarí elsta handverksbakarí landsins

Í Bernhöftsbakaríi sem er elsta bakarí landsins, stofnað 1834 er einnig boðið upp á mikið úrval af bollum og má þar nefna til dæmis púnsbollur sem eru með rommi og vanillu sem Sigurður segir mjög klassíska og vinsæla, auk þess sem boðið er upp á margar aðrar bragðtegundir. Hann segir að á bolludaginn verði einnig boðið upp á nokkrar tegundir af gerbollum en þær hafi verið að víkja fyrir vatnsdeigsbollunum í áranna rás. Hann segir að þegar hann hafi verið að læra bakstur fyrir 30 árum síðan hafi gerbollur haft vinninginn.

Bollur oft á boðstólum um helgar

Það sem kannski færri vita þá býður Bernhöftsbakarí viðskiptavinum sínum oft upp á að kaupa bollur um helgar. Sigurður segir að það séu til þeir sem finnast það hálfgerð helgispjöll að vera með bollur á öðrum tíma en á bolludaginn. Það sé þó óþarfi að láta sér finnast það því til dæmis í Þýskalandi og Frakklandi séu bollur mjög vinsæl vara í konditori.

Fyrir þá sem vilja kíkja í Bernhöftsbakarí til þess að fá sér bollur er rétt að benda á að bakaríið er staðsett á Klapparstíg 3 við Skúlagötu.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila