Segir alveg augljóst að verið sé að koma Íslandi inn í ESB í smáum skrefum

Það er alveg augljóst að það ferli sem er í gangi með innleiðingu ESB tilskipana á Íslandi miðar að því að koma Íslandi inn í Evrópusambandið í smáum skrefum. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Haraldar Ólafssonar prófessors í veðurfræði við Háskóla Íslands og formanns Heimssýnar í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar.

Haraldur segir að þetta megi sjá á nokkrum nýlegum dæmum.

„til dæmis þessir dómstólar og þetta tveggja stoða kerfi í þessu EES samstarfi sem við erum í sem var ákveðið vegna þess að menn töldu alveg fráleitt að EFTA ríkin færu að framselja dómsvald til hins aðilans. Þetta kerfi hefur smám saman gufað upp, þetta hefur Carl Baudenbacher í raun og veru staðfest í skoðanaskiptum hans og Hjartar Guðmundssonar í Morgunblaðinu með því að segja að þetta gangi ekki upp og þess vegna eigi Evrópusambandið bara að ráða og þetta tveggja stoða kerfi sem menn hafa ákveðið að yfirgefa til dæmis í orkumálum sé bara kerfi liðins tíma. Hann Carl kom hingað fyrir þingnefnd til að útskýra að þetta væri allt í lagi af því evrópumenn væru svo góðir að það væri í lagi að þeir fengju meiri völd á Íslandi“ segir Haraldur.

Gengið framhjá tveggja stoða kerfinu

Hann segir að það sé ekki hægt að skilja orð Carls í skoðanaskiptum hans og Hjartar á annan veg en svo að betra væri að Evrópudómstólinni tæki að sér hlutverk EFTA dómstólsins.

„það er ekki hægt að skilja þetta á annan veg, hversu langan tíma sem það svo tekur, það er verið nú þegar að skrifa lög sem síðan verða lög á Íslandi sem ganga framhjá þessu tveggja stoða kerfi“

Meiri valdasamþjöppun

Haraldur bendir á að Evrópudómstólinn sé mjög pólitískur að hans markmið sé að styðja við samrunaferli og samruni sé farinn að aukast.

„það er deginum ljósara nú þegar Bretar eru farnir að þá verður meiri samruni og valdasamþjöppun og hún verður í Frakklandi og Þýskalandi og ákvarðanir verða framvegis teknar á tveggja manna fundum, Bretar voru alltaf á bremsunni í þessu samrunaferli og nú eru menn lausir við þá, þá er hægt að gera þetta sterkara, svo er sætt lagi þegar vinveitt stjórnvöld eru við völd að þá er stokkið til og breytingar gerðar“

Evrópusambandið vill fá að ráða hverjir koma til Íslands

Haraldur segir að fyrirhugaðar breytingar á Shengen samstarfinu sem Ísland er aðili að feli í sér að Evrópusambandið vilji nú fá að ráða hverjir komi til Íslands, það sé gert með því að fólk þurfi að greiða sérstakt gjald vilji þeir fá áritun til þess að komast inn til Evrópu.

„það er auðvitað alvarlegt mál að erlent ríkjasamband ætlar að fá völd til þess að ákveða hvaða ferðamenn fá að koma til Íslands, við hefðum nú ekki viljað að Napóleon hefði fengið að ráða þessu og tala nú ekki um þá sem réðu í Þýskalandi skömmu fyrir miðja síðustu öld fengju að ráða því, það er auðvitað grundvallaratriði að Íslendingar fái að ráða því sjálfir. Málið er tvíþætt, annars vegar þetta vald sem færist til útlanda og maður veit aldrei hvernig það verður notað, maður veit til dæmis ekki í hvaða deilum Evrópusambandið mun eiga í eftir tíu ár og gætu mögulega stöðvað ferðamannastraum til Íslands, svo er það þetta áritunargjald sem er auðvitað bara þannig að það er verið að leyfa Evrópusambandinu að skattleggja ferðamannastrauminn til Íslands “ segir Haraldur.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila