MYND/Sigurjón Ragnar
Innri markaður ESB er kjölfestumarkaður fyrir útflutning frá Íslandi og þátttaka í evrópskum samstarfsáætlunum hefur stóreflt íslenskt samfélag frá því að EES-samningurinn tók gildi árið 1994. Þetta var meðal þess sem fram kom í opnunarávarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra á málþingi sem haldið var á dögunum í tilefni af 30 ára afmæli EES.
Hún sagði undirritun EES-samningsins hafa verið mikið heillaspor fyrir þjóðina og að árangur Íslands af EES samstarfinu væri óumdeilanlegur.
„En að þessu sögðu, verðum við auðvitað að fylgjast vel með þróun Evrópusambandsins og evrópska efnahagssvæðisins og vera á varðbergi með hagsmuni okkar að leiðarljósi,“ sagði Þórdís Kolbrún ennfremur. „Við ætlum að byggja til framtíðar á því sem samningurinn hefur fært okkur en jafnframt huga að þróun hans. Aðgangur að innri markaðinum verður áfram lykillinn að efnahagslegu öryggi okkar til langframa, og við höfum sýnt að við erum samkeppnishæf í evrópsku samstarfi. Þannig hugum við hvað best að hagsmunum Íslands.“
Á málþinginu flutti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, myndbandsávarp og þá tóku Lucie Samcova Hall-Allen, sendiherra ESB á Íslandi, Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís, og Borgar Þór Einarsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Uppbyggingarsjóðs EES, einnig til máls.
Í síðari hluta málþingsins stýrði Björn Malmquist fréttamaður pallborðsumræðum um ávinning Íslands af þátttöku í evrópskum samstarfsáætlunum á borð við Horizon, Erasmus+, Creative Europe og fleirum. Á meðal þátttakenda voru fulltrúar íslenskra mennta- og rannsóknarstofnana, fyrirtækja og menningarlífs en vel yfir 40 þúsund Íslendingar hafa tekið beinan þátt í starfi á vegum samstarfsáætlananna. Fram kom í umræðunum að stuðningur úr evrópskum samkeppnissjóðum hafi oft og tíðum skipt sköpum fyrir íslenska þátttakendur hvað varðar rannsóknir og áform íslenskra fyrirtækja og stofnana.
Málþingið fór fram á Grand Hotel Reykjavík og var skipulagt var af utanríkisráðuneytinu, Rannís, sendinefnd ESB á Íslandi og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Streymt var frá viðburðinum og er upptöku að finna hér.