Segir börnin hafa sjálf kallað eftir umdeildu kynfræðslunni

Sú umdeilda kynfræðsla sem mikið hefur verið rædd í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum og gengið hefur fram af börnum og foreldrum var sett á vegna þess að börnin sjálf kölluðu eftir henni. Þetta segir Ásmundur Einar Daðason mennta-og barnamálaráðherra en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu sem hlusta má á í spilaranum hér að neðan.

Barnaþing á ábyrgð Umboðsmanns Barna

Ásmundur Einar segir að efnið sem um ræðir hafi verið gefið út af Menntamálastofnun og segir Ásmundur að það hafi verið gert fyrst og fremst vegna þess að börnin hafi kallað eftir því sjálf. Það hafi þau gert á sérstöku Barnaþingi sem Umboðsmaður Barna hafi annast. Börnin sem tóku þátt séu valin á þingið samkvæmt slembiúrtaki.

Börnin hafi viljað meiri kynfræðslu

Hann segir að börnunum finnist vanta aukna kennslu þegar komið sé að kynfræðslunni, þau hafi sjálf kallað eftir þessu og það hafi verið ein af þeim niðurstöðum sem fram komu á Barnaþinginu. Það hafi komið mjög skýrt fram að börnin vilji meiri fræðslu um þessi mál. Þá kalli börnin meira eftir beinna lýðræði og það sé meira talað og hlustað á þau.

Refsivert að særa blygðunarkennd barna

Ásmundur Einar segir að það sé svo spurning hvort eldri kynslóðin sé ekki að átta sig á einhverjum ógnum þegar kemur að þessum málaflokki en börnin vilji fá fræðslu um. Arnþrúður benti á að þarna sé fræðslan í þeim búningi að hún sé á gráu svæði og bendir á að það sé í almennum hegningarlögum ákvæði sem geri ráð fyrir fangelsisvist gagnvart þeim sem særa blygðunarsemi barna. Í því sambandi segir Ásmundur Einar að kynferðismál séu í raun út um allt í umhverfi barna, til dæmis í farsímunum og þau vilji heldur fá fræðslu í skólunum um hvað sé satt og rétt.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila