Segir matvælaráðherra hafa tafið leyfisveitingu til hvalveiða

Matvælaráðherra hefur haft það að meginmarkmiði sínu að tefja útgáfu veiðileyfis til Hvals hf í því augnamiði að koma beinlínis í veg fyrir að Hvalur hf gæti hafið hvalveiðar þetta árið. Þetta segir Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness en hann var viðmælandi í þætti Péturs Gunnlaugssonar og Arnþrúðar Karlsdóttur í dag.

Vilhjálmur segir nánast útilokað að Hvalur hf geti yfir höfuð nýtt sér leyfið því vegna þeirrar óvissu sem var um hvort leyfi yrði yfir höfuð veitt. Áður en veiðar hefjast þarf að ráða starfsfólk bæði í Hvalstöð og á hvalbátana sjálfa. Þá þurfi að setja bátana í slipp áður en haldið er til veiða og kaupa aðföng erlendis frá. Kostnaður við að kaupa aðföngin getur hlaupið á tugum milljóna króna. Þetta taki sinn tíma og því þegar loks allt væri klárt væri nánast kominn vetur og því ekki hægt að halda til veiða.

Ekki sá fjöldi sem Hafró ráðleggur

Þá bendir Vilhjálmur á að sá fjöldi dýra sem ráðherra leyfir að veidd séu séu langt undir þeim fjölda sem ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar kveður á um en hún hljóðar upp á 160 dýr en ráðuneytið leyfir veiðar á 128 dýrum.

Það eru gungur á Alþingi

Vilhjálmur gagnrýnir Alþingi harðlega og segir að þeir sem þar sitji séu gungur að standa ekki betur vörð um atvinnufrelsi fólks sem og rétt Hvals hf til þess að stunda hvalveiðar. Hann segir málið vera ákveðið högg fyrir Akraneskaupstað því veiðarnar skipti bæjarfélagið miklu máli. Fyrir það fyrsta eru fjölmargir Akurnesingar sem vinni við hvalveiðar þegar þær eru í fullum gangi auk þess sem bæjarfélagið sjálft auk Hvalfjarðarsveitar fengi að njóta umtalsverðra tekna vegna veiðanna.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila