Segja dróna vera byltingu við eftirlit með atburðum eins og eldgosið við Grindavík

Almannavarnir segja að notkun dróna síðustu mánuði í og við Grindavík og Svartsengi hafi gjörbylt upplýsingasöfnun vegna eldgosa og hraunflæðis á svæðinu. Drónarnir hafa nýst til fjölbreyttra verkefna, bæði staðbundið og við fjareftirlit. Í þessari frétt má sjá myndir af drónum og myndir sem þeir hafa tekið en myndirnar eru frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Myndir sem teknar hafa verið með drónum Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra hafa verið mjög mikilvægar, bæði fyrir Almannavarnir og Veðurstofuna, sem hafa nýtt efnið til að skoða síbreytilegar aðstæður á gosstöðvum þar sem breytingar geta orðið mjög skyndilega. Myndstreymi drónanna hefur veitt yfirgripsmikla yfirsýn yfir gossvæðið og hraunflæði. Auk þess hefur Slökkvilið Grindavíkur nýtt dróna til eftirlits með gróðureldum og fengið mikilvægar upplýsingar við þá vöktun.

Drónarnir hafa einnig reynst ómetanlegir við eftirlit á svæðinu, t.a.m. með umferð ferðamanna og gangandi fólks um lokuð svæði. Þá hafa þeir jafnframt nýst vel við eftirlit með varnargörðunum og kortlagningu eldgosasvæðisins. Sérstaklega hafa svokallaðir dokkudrónar komið að miklu gagni við öryggis- og björgunaraðgerðir, útköll og leitir að ferðamönnum, bæði innan og utan bæjarins.  

Starfsfólk lögreglu á Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra hefur fengið sérstaka þjálfun til að nýta búnaðinn og þjálfunar- og fræðslunámskeið hafa verið útbúin og síðar aðlöguð með hliðsjón af þeirri reynslu sem orðið hefur til með notkun drónanna. Þjálfun, fræðsla og reynsla síðustu mánaða mun í framtíðinni auka getu viðbragðsaðila að nýta sér þessa tækni til góðs.

Dokkudrónarnir Huginn og Muninn eru staðsettir í Grindavík og í Svartsengi. Huginn sem er í Grindavík hefur á síðustu mánuðum farið í 309 flug og flugtími hans í heildina er 72 klukkustundir. Muninn er staðsettur við Svartsengi, hann hefur ekki síður reynst vel og hefur nú þegar farið í 91 flug en samanlagður flugtími hans er um 21 klukkustundir.  Staðsetning drónanna hefur gert það mögulegt að ná yfir stærra svæði með betri þekju og lengri eftirlitstímum og þeir hafa því reynst mikilvægir í að tryggja öryggi og eftirlit í Grindavík og nágrenni, sem og við þróun og yfirsýn yfir eldgosasvæðið.

Segja Almannavarnir að drónarnir hafi meðal annars nýst vel þegar hraun fór yfir varrnargarðinn við Svartsengi og farið var í að kæla hraunið.  Þá var hægt að stilla drónana þannig að þeir námu hitastig hraunsins og þar með sást betur hvaða áhrif vatnskælingin hafði á það.

Mögulegt er að stýra Huginn og Muninn hvar sem er en oftast er þeim stýrt frá Samhæfingarstöð Almannavarna eða nálægt vettvangi úr sérútbúnum dróna- og tæknibíl.  Bíllinn er sjálfbær með rafmagn, öfluga nettengingu og gervihnattasamband til vara.

Hér að neðan sjá flettimyndaseríu

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila