
Fjörutíu og sex liðum af fimmtíu í ásökunum sex kvenna á hendur séra Gunnari Sigurjónssyni sóknarprests í Digraneskirkju hefur verið vísað frá af hálfu teymis Þjóðkirkjunnar og varða þeir fjórir sem eftir eru kaffistofuspjall sem Gunnar átti ekki frumkvæði að. Þetta kemur fram í gögnum sem Útvarp Saga hefur undir höndum. Séra Arnaldur Arnold Bárðarson prestur á Selfossi og formaður Prestafélags Íslands sem var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í síðdegisútvarpinu í dag segir rannsókn teymisins hafa tekið alltof langan tíma og því sé Gunnar orðinn fórnarlamb í málinu, enda hafi hann ekki fengið að starfa sem prestur í Digraneskirkju alveg frá því rannsóknin hófst fyrir átta mánuðum síðan.
Arnaldur segir að Teyminu sé ætlað að rannsaka mál meintra þolenda sem til þess leita og verði teymið þess áskynja að mögulega hafi refsiverður verknaður verið framinn séu þau mál send lögreglu til frekari rannsóknar. Ljóst sé því að Gunnar hafi ekki framið refsiverðan verknað og kemur það heim og saman við þau gögn sem Útvarp Saga hefur undir höndum.
Umdeild ummæli setts sóknarprests Digraneskirkju í viðtali við Fréttablaðið
Þegar rannsókn teymisins var á frumstigi lét Sunna Dóra Möller settur sóknarprestur í Digraneskirkju frá sér fara í viðtali við Fréttablaðið að málið varðaði kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti innan kirkjunnar, einnig lét hún þau ummæli falla í viðtalinu að hún teldi að margir myndu hugsa sinn gang, hvort þeir myndu telja sig vera stætt af því að starfa með meintum geranda myndi Gunnar snúa aftur til starfa. En fljótlega kom í ljós sem fyrr segir að 47 atriði af þeim fimmtíu sem Gunnar var ásakaður um stæðust ekki skoðun og að hin atriðin hafi varðað kaffistofuspjall sem Gunnar hafi ekki átt frumvæði að, Gunnar hafi einungis nýtt málfrelsi sitt og tekið þátt í spjallinu. Gunnar hins vegar fékk ekki lengst framan af að vita hvað hann væri sakaður um að hafa gert.
Gunnar sjálfur orðinn þolandi í málinu vegna þess að rannsókn hefur tekið of langan tíma
Athygli vekur að þegar teymið ræddi við meinta þolendur var rætt við þá alla í einu og því ljóst að rannsókn teymisins er háttað á allt annan hátt en ef málið hefði verið rannsakað af lögreglu. Þar sé lögð áhersla á að ræða við málsaðila í einrúmi, enda geti frásagnir fólks litast af öðrum frásögnum sem fram koma í málum sé þess ekki gætt.
„ef að mál eru þannig að þau varði beinlínis ofbeldi eða lögbrot þá vísar teymið slíkum málum alltaf til lögreglu því það er ekkert annað í boði því þarna gilda eins og í samfélaginu öllu ákveðin lög og reglur og við erum því ekki að tala um að þessi mál í Hjalla og Digranessókn varði lögregluna, við erum fyrst og fremst að tala um mál sem varða samskipti, þetta eru sex aðilar sem ekki eru allir prestar heldur einnig starfsfólk sem telja að samskipti hafi verið með þeim hætti að það þurfi að rannsaka þau og það þurfi að fást einhvers konar niðurstaða í þessi samskipti, en tíminn sem þessi rannsókn hefur tekið er allt of langur og það hafa margir haft áhyggjur af því, það er auðvitað grundvallaratriði í okkar réttarríki að mál séu rannsökuð fljótt og vel, það er hluti af réttlátri málsmeðferð að mál dragist ekki á langinn og ég ætla bara að fá að segja það sér að þetta mál hefur dregist allt of lengi og þar með er það vont fyrir alla aðila og líka þann sem rannsakaður er því hann er þá orðinn þolandi í málinu“ segir Arnaldur.
Ásökunum fylgir áfellisdómur
Arnaldur ítrekar hversu þungt ásakanir geta lagst á þann einstakling sem borinn er sökum og því skiptir mjög miklu máli að klára rannsókn slíkra mála fljótt og vel. Til að mynda þurfi sá sem ásakaður er að þola það að ásakanir eru ákveðinn áfellisdómur þegar þær koma upp og hann situr á herðum viðkomandi alveg þar til rannsókn lýkur.
„segjum sem svo að ég myndi lenda í slíkri rannsókn að þá er það auðvitað viss áfellisdómur þá gerir fólk ráð fyrir því að ég hafi brotið eitthvað af mér en það þarf ekki að vera, það kann að vera að það sé uppi einhver ágreiningur og þá er hann skoðaður og biskup sem ber að lokum ábyrgðina á að ljúka málinu“segir Arnaldur.
Þurfum að fara yfir störf teymisins
Arnaldur segir að ljóst sé að skoða þurfi vinnu teymisins, sérstaklega hvað varðar þann langa tíma sem rannsóknir þess virðast taka og velta því upp hvort setja þurfi teyminu tímamörk þegar kemur að rannsóknum þess.
„ég tel teymið ekki fullkomið frekar en önnur mannanna verk og tel að við þurfum klárlega að setjast í sameiningu yfir þetta teymi sem við höfum og slípa af ýmsa vankanta, það þarf til dæmis að koma inn ákveðnum tímamörkum en það breytir ekki því að lokaniðurstaðan er alltaf háð dómgreind þess sem situr sem biskup Íslands“
Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan