Að undanförnu hefur Háskóla-nýsköpunar og iðnaðarráðuneytið unnið að því að leggja niður nám í ákveðnum iðngreinum eða færa það undir aðrar iðngreinar. Það eru síður en svo allir sáttir og sér í lagi ekki þeir sem lagt hafa það á sig að læra þær greinar, það er þó rökstuðningur ráðuneytisins sem er það sérkennilegasta við þetta allt saman. Þetta segir Sigurður Már Guðjónsson bakarameistari í Bernhöftsbakarí og formaður Landssambands Bakarameistara en hann var gestur Valgerðar Jónsdóttur í menntaspjallinu.
Bátasmíði lögð niður á Íslandi
Sigurður segir að sem dæmi um þetta sé bátasmíði sem stóð til að færa undir húsasmíði. Svo varð þó ekki og hún því lögð niður. Þær greinar séu ólíkar að mörgu leyti og til að mynda læri bátasmiðir að beygja timbur með sérstakri gufuaðferð og hún sé ekki kennd í húsasmíði eða hafi að minnsta kosti ekki verið kennd hingað til. Þetta sé gott dæmi um að sumar greinar eigi einfaldlega heima einar og sér en ekki undir öðrum greinum.
Iðngreinar lagðar niður svo réttindalausir getir starfað sem iðnaðarmenn
Sigurður bendir á að rökstuðningur ráðuneytisins fyrir því að leggja niður sumar greinar sé afar sérkennilegur. Rökstuðningur ráðuneytisins sé nefnilega sá að það séu margir sem starfi í viðkomandi grein án réttinda og séu vinna gott starf í greininni en eigi á hættu að vera kærðir þar sem þeir hafi ekki réttindi, því þætti ráðuneytinu betra að leggja greinarnar niður sem iðngreinar.
Sigurður segir þessi rök ekki halda vatni því þetta sé eins og að segja að ef viðkomandi sé ágætur ökumaður en hafi ekki ökuréttindi þá sé alveg óþarfi að hafa afskipti af honum í umferðinni.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan