Sérsveitin braust inn í Skáksamband Íslands og handtók saklausan forsetann

Halldór Grétar Einarsson stofnandi Skákdeildar Breiðabliks og Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands. Þeir ræddu báðir í sitt hvorum helmingi þáttarins um frammistöðu Vignis Vatnars Stefánssonar en hann náði lokaáfanga sínum að stórmeistaratitli með því að sigra á opnu skákmóti í Serbíu í morgun.

Þrátt fyrir að skákíþróttin sé rólyndisíþrótt geta þeir sem henni tengjast lent í sérkennilegum aðstæðum að ósekju. Það fékk Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands að reyna dag einn í janúar 2018 þegar sérsveitarmenn réðust skyndilega inn í höfuðstöðvar Skáksambandsins. Í þættinum Við skákborðið í dag sagði Gunnar frá þessu ótrúlega atviki en Gunnar var gestur Kristjáns Arnar Elíassonar.

Gunnar segir að atvikið hafi átt sér stað á mánudegi en daginn áður hafði hann fengið mörg torkennileg símtöl úr leyninúmeri en ákvað að svara ekki þar sem hann hefði verið úrvinda eftir að hafa verið á skákmóti.

„Ég fór út að ganga og þegar ég kem til baka er mættur maður frá DHL flutningum sem segir að hann sé að koma með sendingu. Ég fer inn með kassann og á honum stendur að í honum séu skákbikarar. Ég er varla búinn að opna kassann þegar inn stekkur grímuklæddur sérsveitarmaður, skellir mér upp við vegg og handtekur mig“

Gunnari var eðlilega brugðið við uppákomuna en á eftir grímuklædda sérsveitarmanninum hafi fylgt stór hópur sérsveitarmanna sem bókstaflega rústaði húsnæði Skáksambandsins og Taflfélags Reykjavíkur, braut þar allt og bramlaði. Hann segir að sérsveitarmönnum hafi verið boðnir lyklar til þess að ekki þyrfti að brjóta upp hurðir en ekki hafi verið hlustað á það boð.

„Mér var tilkynnt um að ég væri grunaður um stórfellt fíkniefnabrot og síðan settur í fangaklefa í um tvo klukkutíma – en var mjög rólegur yfir þessu öllu því ég vissi að samviska mín var hrein og ég hefði ekkert með málið að gera. Þetta var auðvitað lífsreynsla en maður getur nú vel hlegið að þessu – svona eftir á“

Eftir rannsókn kom í ljós að málið hafði ekkert með Skáksambandið eða starfsfólk þess að gera heldur var þetta partur af máli sem tengdist manni í fíkniefnainnflutningi sem ekki tengdist Skáksambandinu á nokkurn hátt. Maðurinn hafði komið fyrir fíkniefnum inni í skákmunum sem voru í kassanum en maðurinn hafði ætlað að nálgast þá áður en sendingin bærist Skáksambandinu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila