Site icon Útvarp Saga

„Síðasta viðvörun“ loftslagsdómsdags-spámanna SÞ

Sænska sjónvarpið hafði sem aðalfrétt í kvöld að „vísindapallborð“ Sameinuðu þjóðanna hefði birt nýja skýrslu sem væri „síðasta viðvörun“ til jarðarbúa vegna loftslagsmála. Segir beint, að hækkun hitastigs jarðar um 1,1 gráðu Celsíus á undanförnum árum sé af manna völdum og að markmiðið að hækka ekki hitastig jarðar um meira en 1,5% muni ekki verða náð heldu hækki hitinn mun meira með tilheyrandi vítiskvölum og loftslagshelvíti fyrir allt líf á jörðu. Engin furða, að sænska sjónvarpið sé með sálfræðing í sérstökum þætti þessa dagana til að kenna foreldrum ungra barna, hvernig þeim eigi að takast að fá börnin til að sofna á kvöldin vegna loftslagsangistar, sem slítur andlegri heilsu þeirra meira en þrettán Grýlur úr óbyggðum.

Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, IPCC, kallar núna eftir „umfangsmiklum breytingum á samfélaginu“ til að koma í veg fyrir loftslagshelvíti á jörðu. Alla vega til að minnka vítislogana. Leiðtogar heimsins verða að bregðast við núna og nota þær lausnir sem til eru og forða heiminum frá títönsku loftslagsslysi. Allt er hinu heimska mannfólki að kenna sem nýtir jarðefni sem gefa frá sér koltvísýring. Aldrei er minnst á að koltvísýringur er grundvöllur grænna blaða vaxtarríkisins, jurta og trjáa sem breyta því í súrefni sem „heimskingjarnir“ þurfa til að anda. „Við göngum en ættum að vera á harðahlaupum. Losun verður að minnka um helming fyrir 2030 ef við ætlum að ná 1,5 gráðu markmiðinu“ sagði Hoesung Lee, formaður IPCC, þegar skýrslan var kynnt síðdegis á mánudag.

SÞ krefst umfangsmikilla breytinga á samfélaginu og sænska sjónvarpið er með sálfræðing til að róa börn með loftslags-kvíðaköst fyrir svefninn

Samkvæmt upplýsingum frá IPCC er hægt að stöðva loftslagshelvítið og steikingu mannkyns með „umfangsmiklum breytingum á samfélaginu.“ António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir svo kölluð rík lönd ein bera ábyrgðina á óförum loftslagsins. Sænska sjónvarpið reynir að róa sænsk börn í svefn á kvöldin sem þjást af kvíðaköstum fyrir svefn vegna loftslagskvala. Reyhaneh Ahangaran barnasálfræðingur hjá sænska sjónvarpinu segir:

„Börn geta fundið fyrir mikilli gremju og velt því fyrir sér hvers vegna fullorðna kynslóðin gerir ekki meira fyrir loftslagið fyrir sína kynslóð. Það er fullnægjandi áhyggjuefni.“

Helstu punktar skýrslunnar

Hér að neðan eru helstu punktar úr skýrslunni samkvæmt SVT og þar fyrir neðan er úrdráttur úr skýrslunni á ensku og kynning á skýrslunni. Aðalskýrslan kemur síðar, hún er upp á svo margar blaðsíður að trúlega er enn verið að fella tré fyrir vinnslu hennar.

Upphitunin

Hitinn hefur þegar hækkað um 1,1 gráðu og það er mannkynið sem hefur valdið því með útblæstri frá jarðefnaeldsneyti og landbúnaði og skógrækt. Það hefur ekki verið svona heitt í meira en 100.000 ár og hlýnunin hefur ekki verið svona hröð í að minnsta kosti 2.000 ár. Mest hefur það gerst á síðustu 50 árum.

Ísarnir

Íshellurnar á Grænlandi og Suðurskautslandinu bráðna hraðar núna en fyrir 20 árum. Nær allir jöklar á fjallasvæðum eru að minnka. Hafísinn í kringum norðurpólinn er að minnka og þynnast. Svæðið hefur minnkað um 40% síðan á níunda áratugnum og er minna á sumrin en í 1000 ár.

Sjávarmál

Frá árinu 1900 hefur yfirborð sjávar hækkað um tuttugu sentímetra, að hluta til vegna bráðnunar íss og að hluta til vegna útþenslu hlýrra vatns. Árið 2100 er talið að sjórinn muni hækka á bilinu hálfan til einn metra og halda síðan áfram að hækka um nokkra metra á næstu öldum.

Ofsa veður

Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna segir að losun gróðurhúsalofttegunda manna hafi gert ýmis öfgaveður enn verri. Þetta kemur harkalega niður á fólki. Skýrustu samböndin eru með hitabylgjum og úrhellisrigningum sem hafa orðið tíðari og ofsafengnari eftir fimmta áratuginn. Jafnvel sjórinn verður fyrir áhrifum af hitabylgjum í auknum mæli. Um fellibyli og hitabeltisstorma ríkir meiri óvissa.

Matur og vatn

Matar- og vatnsskortur ógnar lífi milljóna manna. Hægt hefur á uppskeruaukningu og IPCC varar við því að ræktað land geti orðið ónothæft. Meira en þrír milljarðar manna eru skilgreindir sem viðkvæmir. Fátækt eykur áhrifin.

Ógnir við náttúruna

Loftslagsbreytingar hafa þegar valdið miklum skaða á mörgum vistkerfum og dýr og plöntur eru í útrýmingarhættu eins og kóralar. Margar tegundir eru reknar í átt að pólunum eða í meiri hæð.

Hversu mikið þarf að draga úr losun?

Losun eykst en þó hægar en áður. Í byrjun fjórða áratugarins verður hámarks markmið um 1,5 gráðu hlýnun að hafa verið brotið. Til að forðast það, þá þarf losunin að minnka innan nokkurra ára og hafa næstum helmingast fyrir 2030 til að vera komin niður í núll árið 2050.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla