Sjúkraliðar krefjast aðgerða í kjaramálum tafarlaust

Sjúkraliðafélag Íslands hefur sent frá sér ályktun sem samþykkt var á fulltrúaþingi félagsins í gær en í ályktuninni er þungum áhyggjum lýst yfir þróun í kjaramálum sjúkraliða. Bent er á í ályktuninni að stjórnvöld hafi í áraraðir lofað því að taka á kynbundnum launamun en það sé ekki hægt að sjá efndir slíkra loforða sé litið til kjara sjúkraliða þar sem 97% þeirra séu konur.

Í ályktuninni segir meðal annars:

Síðastliðið haust var haldinn fjölmennasti útifundur Íslandssögunnar þegar kvennaverkfallið
stóð yfir. Stjórnvöld tóku þá undir kröfur fundarins um jafnrétti. Nú eru kjarasamningar
opinberra starfsmanna lausir og gefst því einstakt tækifæri til að standa við fögur fyrirheit.

Launamunur kynjanna er ekki aðeins tölfræðilegt viðfangsefni heldur er hann félags- og
efnahagslegur veruleiki. Launamisréttið hefur þannig neikvæð áhrif á lífsgæði og fjárhagslegt
öryggi kvenna alla þeirra ævi.

Við erum búin að heyra nógu lengi orð og fagurgala um aðgerðarhópa, átakshópa og
nefndavinnu í jafnréttismálum, núna krefjumst við aðgerða.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila