Áhrif viðskiptabannsins gegn Rússlandi er farið að hafa alvarleg áhrif á íslensk fyrirtæki og þar með samfélagið allt. Skaginn 3X seldi vörur og þjónustu til Rússlands og fyrirtækið varð fyrir miklum búsifjum eftir að viðskiptin stöðvuðust. Þetta hefur haft þung áhrif á samfélagið á Akranesi. Þetta segir Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu sem heyra má í spilaranum hér að neðan.
Mikil áhrif á íslensk fyrirtæki
Bergþór sagði að stór hluti viðskipta Skagans 3X hafi verið tengdur Rússlandi, og að bannið hafi ekki aðeins skert möguleika fyrirtækisins, heldur haft keðjuverkandi áhrif á vinnumarkað og samfélagið í heild. Hann benti á að þetta væri ekki einsdæmi, þar sem fleiri íslensk fyrirtæki hefðu orðið fyrir miklum skaða vegna þessara aðgerða.
Ísland varð fyir þyngri áhrifum af viðskiptabanninu en aðrar þjóðir
Bergþór segir að þrátt fyrir viðskiptabannið við Rússland, hafi önnur Evrópulönd, eins og Þýskaland og Frakkland, haldið áfram ákveðnum viðskiptum við Rússa, sérstaklega á sviði orku. Bergþór gagnrýndi þessa tvöfeldni og sagði að Ísland hefði orðið fyrir þyngri áhrifum af viðskiptabanninu en margar samstarfsþjóðir landsins. Hann nefndi að á sama tíma og Íslendingar fylgdu viðskiptaþvingunum, væru mörg Evrópulönd enn að fá olíu og gas frá Rússlandi, þó í gegnum milliliði á hærra verði. Bretar kaupa nánast allt gas frá Rússlandi í gegnum Ungverjaland á mun hærra verði en áður.
Mikil mistök að kalla sendiherra Íslands heim frá Moskvu
Þá gagnrýndi Bergþór ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að loka rússneska sendiráðinu í Reykjavík og kalla sendiherra Íslands heim frá Moskvu. Hann sagði að á tímum eins og þessum væri mikilvægara en nokkru sinni að halda uppi opnum samskiptaleiðum við Rússland. Að hans mati hafi þessi ákvörðun verið óskynsamleg, sérstaklega í ljósi þess að diplómatísk samskipti séu oft mikilvægari á stríðstímum en öðrum tímum.
Stjórnvöld verða að huga betur að íslenskum hagsmunum
Lagði Bergþór áherslu á að stjórnvöld ættu að huga betur að íslenskum hagsmunum í alþjóðasamskiptum og tryggja að íslensk fyrirtæki verði ekki fyrir óþarfa skaða vegna aðgerða sem önnur ríki virðast ekki fylgja jafn fast eftir.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan