Skákin besta íþróttin til þess að blanda saman íþróttinni og ferðalögum – Þó ekki alltaf

Í þættinum Við skákborðið ræddi Kristján Örn Elíasson við þá félaga og skáksnillingana Björn Þorfinnsson og Gunnar Freyr Rúnarsson sem báðir eru í Víkingaklúbbnum þar sem Gunnar er jafnframt formaður.

Í þættinum rifjuðu þeir félagar upp skákferðir sem þeir hafa farið í og þrátt fyrir að þær hafi ekki alltaf gengið áfallalaust fyrir sig segir Björn að skákin sé besta íþróttin til þess að blanda saman íþróttinni og ferðalögum.

Björn sagði meðal annars frá því að í einni ferðinni hafði hann framvísað vegabréfi sem hann nokkru áður hafði talið vera týnt og því tilkynnt þar til bærum aðilum um týnda vegabréfið. Á einhvern óskiljanlegan hátt hafði hann komist alla leið til keppnislandsins sem var Makedónía á vegabréfinu sem hafði verið tilkynnt týnt en þegar hann var krafinn um vegabréfið í Makedóníu upphófust vandræðin. Brúnaþungur landamæravörður hrópaði skyndilega BIG PROBLEM segir Björn og að orðið Interpol hafi líka fylgt orðaflaumi landamæravarðarins.

Þá hafði týnda vegabréfið verið tilkynnt til Interpol en í millitíðinni greip Björn vegabréfið með sér án þess að huga að því að hann hafði tilkynnt það týnt. Björn segir að hann hafi reynt að leiðrétta misskilninginn á flugvellinum en allt kom fyrir ekki og að lokum var hann sendur til baka með sömu flugvél og hann kom með til landsins. Á leiðinni þegar flugfreyjan kom og bauð buguðum Birni eitthvað að drekka hugsaði Björn með sér að best væri að slá þessu upp í kæruleysi og fá sér gin og tónic en þá horfði flugfreyjan sérkennilega á hann og sagði að hún gæti alls ekki afgreitt hann um áfengi.

„þetta var alveg eins og ég hefði verið einhver glæpamaður“segir Björn og hlær.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila