Skáksambandið ætti að biðja alla keppendur Íslandsmótsins í skák afsökunar

Skáksamband Íslands ætti að biðja alla keppendur á Íslandsmótinu í skák sem fram fór í golfskálanum við Hlíðarvöll afsökunar á þeim óboðlegu aðstæðum sem þar var boðið upp á. Þetta segir Helgi Árnason formaður Skákdeildar Fjölnis og fyrrverandi skólastjóri Rimaskóla en rætt var við hann í þætti Kristjáns Arnar Elíassonar, Við skákborðið í dag.

Eins og frægt er hætti Héðinn Steingrímsson einn fremsti skákmaður landsins á miðju mótinu vegna hávaða frá kylfingum sem slógu kúlurnar í golfhermum sem staðsettir voru inni í skálanum rétt við mótssalinn. Í kjölfar þess að Héðinn sagði sig frá mótinu ákvað stjórn Skáksambandins að kæra hann til dómstóls K.Í og freista þess að hann yrði settur í þriggja ára keppnisbann.

Héðinn hefur rétt fyrir sér

Helgi segir að með þessari ákvörðun Skáksambandins sé verið að byrja á öfugum enda og að mati hans ætti sambandið að biðja keppendur afsökunar á að mótið hafi verið haldið umkringt golfhermum með tilheyrandi hávaða sem truflaði keppendur og Héðinn mjög mikið að hann sá sér ekki fært að sitja keppnina. Hann segir að það hefði í það minnsta verið hægt að taka umræðuna um málið enda ljóst að menn ætli ekki að bjóða upp á slíka aðstöðu aftur og margir sýni ákvörðun Héðins skilning enda hafi höggin dunið allan þann tíma sem mótið stóð yfir.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun um málið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila