Skákfélag Vinjar var stofnað á sínum tíma af þeim Hrafni Jökulssyni og Róberti Lagermann en tilgangur þess er að efla skáklíf meðal fólks sem glímir við geðraskanir. Í þættinum Við skákborðið í dag ræddi Kristján Örn Elíasson við Hörð Jónasson forseta Skákfélagsins Vinjar en félagið er starfrækt í Vin sem er athvarf fyrir fólk með geðraskanir.
Í þættinum sagði Hörður meðal annars frá því að haldinn er fjöldi viðburða árlega á vegum félagsins en það sem er kannski frábrugðið við önnur skákfélög er að í þessu skákfélagi er ekki rekið barna eða unglingastarf.
Sem fyrr segir er haldinn fjöldi viðburða og segir Hörður að hápunktuirnn sé þegar haldin séu skákmót á Kleppi þar sem fólk með geðraskanir komi úr búsetukjörnum þar sem það býr og mæti á mótið og taki þátt. Þetta hefur mælst mjög vel fyrir og eru þessi mót afar vel sótt.
Hörður segir að það sé mjög notaleg stemning á þessum mótum og til marks um það er svo sest niður á mótinu og boðið upp á kaffiveitingar. Oftar en ekki skapist fjörlegar umræður við kaffiborðið og þá ræða menn ekki heldur ósjaldan um skák og bera saman bækur sínar.
Hlusta má á ítarlegri umræður í spilaranum hér að neðan.