Skelfilegt að fólk sem tekur inn hugvíkkandi efni gefi sig út fyrir að vera meðferðaraðilar

Það er skelfilegt að fólk sem tekur inn hugvíkkandi efni og telur sig því sérfræðinga á því sviði eftir nokkurra mánaða neyslu skuli vera að gefa sig út fyrir að vera meðferðaraðila á því sviði. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Baldurs Borgþórssonar fyrrverandi borgarfulltrúa Miðflokksins í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Baldur segist ekki hrifin af því sem fólk kýs að kalla hugvíkkandi efni, enda séu þau efni ekkert annað en fíkniefni. Baldur segir að það geti vel verið að læknar telji sig geta unnið einhver lyf úr slíkum efnum og nýtt í einhverjum meðferðum en það eigi þá að gera aðeins í læknisfræðilegum tilgangi og undir handleiðslu lækna en varast ætti að láta glepjast af þeim sem gefi sig út fyrir að vera sérfræðingar á þessu sviði af því þeir sjálfi hafi verið að taka inn slík efni og telji þau hafa haft góð áhrif.

Hann segir fjölmiðla á borð við RÚV ekki eiga að ýta undir hættuna á að fólk fari sjálft að leita til sjálfskipaðra sérfræðinga með viðtölum við fólk sem hefur verið að prufa slík efni í einhverja mánuði.

„geymið frekar að taka viðtalið við þetta fólk og takið viðtalið eftir tíu ár og spyrjið þá hvort þessi efni hafi bætt líf þess“segir Baldur.

Hann segist vera í áfalli yfir hvernig umræðan um stórhættuleg fíkniefni hefur þróast, til dæmis sé málsmetandi fólk farið að taka undir kröfu Pírata um afglæpavæðingu. Baldur segir að fólk verði að átta sig á því hvaða skilaboð sé verið að senda með því að taka undir slíkan málflutning. Skilaboðin séu þau sem verið sé að senda ungu fólki að fíkniefnaneysla sé eðlileg og jafnvel hættulítil sem sé alls ekki rauninn.

Baldur bendir á að árlega látist mikill fjöldi ungs fólks af völdum fíkniefnaneyslu og þá sé ótalinn sá fjöldi þeirra sem eldri eru og hafa látist af sömu orsökum. Hann segist þó ekki algerlega andsnúinn afglæpavæðingu en hún þurfi að vera rétt tímasett, þ,e að hún gildi um þá einstaklinga sem hafa snúið við blaðinu og eignast fallegt og gott líf á ný.

„þar gætum við gripið inn í, fellt niður sektir og hreinsað sakavottorð af brotum sem sannarlega eru tengd neyslu viðkomandi, þannig gætum við gefið þessu fólki tækifæri og hjálpað því að snúa til betri vegar“segir Baldur.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila