Skora á Höllu forseta að vísa vopnakaupum í þjóðaratkvæðagreiðslu

Hildur Þórðardóttir rithöfundur, þjóðfræðingur og fyrrverandi forsetaframbjóðandi hefur ásamt Ástþóri Magnússyni stofnanda Friðar 2000 blásið til undirskriftasöfnunar á vefsvæðinu Austurvollur.is í þeim tilgangi að fá Höllu Tómasdóttur forseta til að vísa fjármögnun vopnakaupa fyrir Úkraínu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Arnþrúður Karlsdóttir ræddi við Hildi í Síðdegisútvarpinu um málið en hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst hafa íslensk stjórnvöld varið milljörðum króna í hernaðaraðstoð með vopnakaupum og stuðningi við úkraínskan her. Áætlað er að næsta ár fari um sjö milljarðar króna til hernaðarstuðnings sagði Hildur.

Ísland á að leggja áherslu á friðarviðræður

Hildur gagnrýnir vopnasendingarnar harðlega og spyr hvort þetta sé besta nýting á fjármunum landsins. Hún bendir á að áður hafi Ísland lagt meiri áherslu á mannúðaraðstoð í stríðshrjáðum ríkjum, eins og í Serbíustríðinu, þar sem hjálpargögn og sjúkralið voru send í stað vopna. Hildur telur að Ísland ætti frekar að leggja áherslu á friðarviðræður og mannúðaraðstoð fremur en að taka óbeina þátttöku í stríðinu með vopnasendingum sem hún segir að muni aðeins auka mannfall. Einnig bendir hún á að á næstu fjórum árum gætu vopnasendingar kostað hverja íslenska fjölskyldu allt að 100.000 krónur.

Ísland ætti að fá Rússa og Úkraínumenn til friðarfundar

Hildur segir að Ísland gæti tekið á sig stærra hlutverk sem boðberi friðar og kallað saman friðarviðræður milli Rússa og Úkraínumanna. Hún minnir á að Ísland gegndi lykilhlutverki í alþjóðapólitíkinni þegar leiðtogarnir Ronald Reagan og Mikhail Gorbachev hittust í Reykjavík árið 1986 til að ræða afvopnun í kaldastríðinu. Hildur telur að nú sé tíminn til að Ísland endurheimti það hlutverk og hafni alfarið vopnasendingum til annara ríkja og taki ekki þátt í fjármögnun þeirra.

Hvetur forseta Íslands til að vísa vopnakaupamálinu í þjóðaratkvæðagreiðslu

Deilurnar um vopnasendingarnar hafa einnig beinst að íslenskum stjórnvöldum sem Hildur og hennar fylgjendur hafa gagnrýnt fyrir að taka ekki málið til þjóðaratkvæðagreiðslu. Hildur hefur hvatt til þess að forseti Íslands vísi málum er varða vopnakaup til þjóðaratkvæðis, þar sem það sé hluti af fjárhagsáætlun ríkisins.

Forseti getur vísað málinu tll þjóðarinnar þótt það sé í fjárlagafrumvarpinu

Hún segir að þó vopnakaupin séu hluti af fjárlagafrumvarpinu sé ekkert sem sé því til fyrirstöðu að forseti vísi málinu til þjóðarinnar en vonar að vopnakaupin verði þó sett fram sem sér frumvarp sem forseti gæti vísað sérstaklega til þjóðarinnar.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila