Skráðar gistinætur aldrei mælst fleiri

Í ,,Ferðaþjónusta í tölum – janúar 2024“ má sjá samantekt um ýmsar stærðir í íslenskri ferðaþjónustu fyrir árið 2023, meðal annars brottfarartalningar erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll, skráðar gistinætur, nýtingu á hótelum og nokkrar niðurstöður er varða dvöl ferðamanna á Íslandi s.s. um tilgang ferðar, dvalarlengd og heimsóknir eftir landshlutum.

Um 2,2 milljón erlendar brottfarir árið 2023*

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um 2,2 milljónir árið 2023 samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia eða ríflega hálfri milljón fleiri en árið 2022. Um er að ræða 12% fleiri brottfarir en árið 2019 og um 96% af brottförum árið 2018 sem var metár í fjölda ferðamanna til Íslands.

Bandaríkjamenn voru fjölmennastir árið 2023, tæplega 630 þúsund talsins eða ríflega fjórðungur (28%) allra brottfara. Um er að ræða 171 þúsund fleiri brottfarir Bandaríkjamanna en árið 2022 og um 165 þúsund fleiri en árið 2019. Áður höfðu brottfarir þeirra mælst einu sinni fleiri á ársgrunni eða 695 þúsund talsins árið 2018. Brottfarir Breta voru í öðru sæti, um 279 þúsund, eða um 49 þúsund sinnum fleiri en árið 2022. Um er að ræða fjórða stærsta árið í brottförum Breta en áður höfðu þær mælst á bilinu 298-322 þúsund 2016-2018 . Í þriðja sæti voru brottfarir Þjóðverja, um 136 þúsund talsins, nokkrum þúsundum fleiri en 2022 og 2019. Í fjórða til fimmta sæti voru brottfarir Pólverja og Frakka.

Ríflega þriðjungur brottfara 2023 var að sumri til, tælpega þriðjungur að vori og hausti og tæplega fimmtungur að vetri

Tilgangur og heimsókn í landshluta

Langflestir eða ríflega níu erlendir ferðalangar af hverjum tíu (92,5%) voru í fríi á Íslandi árið 2023. Um 2,3% voru í heimsókn hjá vinum og ættingjum og um 2,5% í viðskiptatengdum tilgangi. Um 2,7% voru í annars konar tilgangi. Um níu ferðamenn af hverjum tíu heimsóttu höfuðborgarsvæðið, um átta af hverjum tíu Suðurland, tæplega sjö af hverjum tíu Reykjanesið, tæplega helmingur Vesturland, tæplega þriðjungur Norðurland, ríflega fjórðungur Austurland og ríflega einn af hverjum tíu Vestfirði.

Meðalfjöldi gistinótta sjö nætur 2023

Ferðamenn dvöldu að jafnaði sjö nætur á ferðalögum um Ísland árið 2023 samkvæmt könnun Ferðamálastofu, tæplega hálfri nótt skemur en árið 2022. Áhrifa Covid-19 faraldursins, sem leiddi til lengri dvalarlengdar erlendra ferðamanna hérlendis, virðast tekin að dvína og dvalarlengdin að færast í það horf sem hún var fyrir faraldur en hún mældist 6,3 nætur 2018 og 6,6 nætur 2019.

Bandaríkjamenn sem vega þyngst sem stærsta þjóðernið dvöldu að jafnaði 6,4 nætur árið 2023 en dvalarlengd þeirra var 6,6 nætur árið 2022. Fyrir Covid-19 var dvalarlengd Bandaríkjamanna 5,4 nætur 2018 og 5,6 nætur 2019. Af tíu fjölmennustu þjóðernunum 2023 dvöldu Þjóðverjar lengst eða 9,6 nætur að jafnaði og Frakkar næstlengst eða 9,4 nætur. Lengst var dvalarlengdin 2023 í ágúst (8,4 nætur) og júlí (8,2) en styst í febrúar (5,3) og janúar (5,6).

Skráðar gistinætur 2023 aldrei mælst svo margar

Skráðar gistinætur voru tæplega tíu milljón talsins árið 2023 samkvæmt gistináttagrunni Hagstofunnar og hafa þær ekki áður mælst svo margar og á það bæði við um gistinætur Íslendinga og útlendinga. Um fimmtung (21,6%) gistinótta mátti rekja til Íslendinga eða um 2,1 milljón talsins. Um er að ræða þriðja árið í röð þar sem gistinætur Íslendinga mælast um tvær milljónir á ársgrunni eða tvisvar sinnum fleiri en þær voru fyrir Covid-19 faraldurinn.

Gistinætur útlendinga í skráðri gistingu mældust 7,8 milljón talsins, um 1,4 milljón fleiri en árið 2022 og um 1,5 milljón fleiri en árið 2019. Þar við bætast gistinætur útlendinga 2023 í óskráðri gistingu, 1,9 milljón talsins.

Tæplega 60% gistinótta á hótelum tilkomnar vegna bandarískra, íslenskra og breskra ferðalanga

Um helmingi skráðra gistinótta (52,8%) 2023 var eytt á hótelum, 5,3 milljónum talsins, samkvæmt gögnum Hagstofu. Um er að ræða um 560 þúsund fleiri hótelgistinætur en árið 2022 (12% aukning) og um 725 þúsund fleiri en árið 2019 (+16%). Ríflega fjórðung hótelgistinótta (1,4 milljón) mátti rekja til Bandaríkjamanna, tæplega fimmtung (944 þús.) til Íslendinga og tæplega 14% (721 þús.) til Breta. Í fjórða til fimmta sæti voru gistinætur Þjóðverja og Frakka.

Um 13,3% skráðra gistinótta var varið á gistiheimilum og um þriðjungi (33,8%) í annars konar gistingu. Ríflega tveimur af hverjum fimm gistinóttum (43,2%) var eytt yfir sumarmánuðina þrjá.

Nýting á hótelum fór yfir 90% á Suðurlandi og Austurlandi í júlí og ágúst 2023

Nýting hótelherbergja á landsvísu fór yfir 75% fimm mánuði ársins 2023 (júní-okt.). Hæst var nýtingin í júlí 87% en þá mældist hún 88% á höfuðborgarsvæðinu og yfir 90% á Suðurlandi og Austurlandi. Þrjá mánuði ársins var nýtingin 66% á landsvísu (feb, mars, maí) en fjóra mánuði ársins fór hún niður fyrir 60% og mældist lægst í desember, 47%.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila