
Það er alltaf spennandi að geta fengið að skyggnast aðeins inn í framtíðina og hvernig mál muni þróast bæði hér heima og erlendis. Því fengum við Guðrúnu Kristínu Ívarsdóttur miðil til þess að bregða á leik með okkur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur í dag og spá svolítið fram í framtíðina. Margt forvitnilegt kom fram þar og hér ætlum við að stikla á því helsta. Mikilvægt er að hafa í huga að spáin er einungis samkvæmisleikur.
Jarðhræringarnar á Reykjanesi
Guðrún segir að hún sjái fyrir sér að jarðhræringarnar við Grindavík og Svartsengi muni leiða til goss sem verði töluvert stórt og jafnvel stærra en gosið í Eyjafjallajökli. Þær jarðhræringar sem við höfum séð að undanförnu sé aðeins forsmekkurinn af því sem muni gerast því atburðarrásin á Reykjanesi mun valda því að aðrar eldstöðvar á íslandi muni fara af stað ein af annari. Bendir Guðrún á að þó gosið í Vestmannaeyjum hafi verið alvarlegt verði gosið í Grindavík mun alvarlegra. Þó gosið í Grindavík muni kannski ekki standa yfir í langan tíma þá muni sem fyrr segir hleypa öðrum eldstöðvum af stað og ferlið muni vara í nokkur ár.
Bláa lónið og virkjunin í Svartsengi undir hraun – Gýs líka inni í Grindavík
Hún segir að gosið sem talin er hætta á að geti orðið á hverri stundu muni koma upp á þremur stöðum. Til dæmis muni fyrst koma gos upp við Bláa lónið og virkjunina í Svartsengi sem bæði fari undir hraun og mega varnargarðarnir sín lítils gagnvart því og munu ekki halda. Þá mun gos einnig koma upp inni í Grindavík á svipuðum tíma í þeim hluta sem er næstur Keflavík mörg hús í Grindavík munu fara undir hraun sér í lagi þau hús sem standa á rauða svæðinu og mun hraunið ná svolítið út fyrir það svæði einnig. Einnig nær sprungan út í höfnina og út í sjó og það mun leiða til sprengigoss. Gos á svæðinu mun samt ekki valda manntjóni. Ekki sé hægt að sjá að það verði nein starfsemi fyrirtækja í Grindavík eftir gos þó fyrirtækin geti lifað af og flutt sig annað.
Alvarlegar afleiðingar fyrir Suðurnesin öll
Svo mun gosið einnig koma upp við hver nærri Bláa lóninu, því verður gosið í nokkurs konar línu út að sjó. Guðrún segir að gosið muni hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir Suðurnesin öll, miklar skemmdir verði af þess völdum á húsum og innviðum og þær skemmdir séu ekki bundnar við Grindavíkursvæðið heldur Suðurnesin öll, t,d af völdum rafmagnsleysis og rofs á veitukerfi á heita vatninu. Flugsamgöngur fara úr skorðum því flugvöllurinn verður óstarfhæfur.
Aðspurð um hvort hún telji mögulegt að verja lagnir fyrir skemmdum af völdum gossins segir Guðrún að pendúllinn sem hún notar við spána segir nei við þeirri spurningu því jörðin sé svo öflug og mannlegur máttur ræður ekki við slíkar hamfarir.
Fé úr hamfarasjóði sólundað í hernað og loftslagsmál
Framtíðin virðist ekki björt hvað Grindavík varðar og segir Guðrún að hún fái það til sín að ekki verði hægt að búa á þessu svæði í nánustu framtíð, fólk muni heldur ekki vilja búa þar. Hún segist finna mikla reiði og kvíða meðal fólksins sem þarna býr um hvað verði um það. Vegna þessa ástand muni blossa upp mikil reiði í samfélaginu. Einnig verði mikil reiði vegna þess að hamfarasjóður hafi verið misnotaður og ekki séu til neinir peningar af þeirri ástæðu inni í sjóðnum. Þá muni koma í ljós að fé hafi verið varið til loftslagsmála og hernaðar. Aðrir sjóðir sem taka eigi á hamförum hafa einnig verið tæmdir segir Guðrún. Íslendingar munu beina reiði sinni að stjórnvöldum reiði sem er tilkomin af misnotkun sjóðsins og einnig því að hælisleitendum hafi verið bjargað um húsnæði og nauðsynjar en sé brugðist við með sama hætti þegar Grindvíkingar eigi í hlut og húsnæði þeirra til dæmis ekki bætt. Íslendingar munu koma saman og mótmæla vegna ástandsins og verða í framhaldi hælisleitendur fluttir á brott til þess að rýma fyrir húsnæði. Reiðin mun síðan að lokum leiða til þess að ríkisstjórnin springur.
Fólk mun búa í kommúnu
Guðrún segir Grindavík vera þannig samfélag að það sé mikið um að þar búi stórfjölskyldur. Fólki verður útvegað húsnæði þar sem aðstæður verða á þann hátt að fólk muni búa í nokkurs konar kommúnu allt að þrjár fjölskyldur saman og erfitt verði fyrir þá sem eru að redda sér húsnæði sjálfir að sækja sér bætur.
Gos verður í Bláfjöllum og á Þingvöllum
Hvað varðar aðrar eldstöðvar sem munu fara af stað vegna jarðhræringanna á Reykjanesi segir Guðrún að sýn hennar til lengri tíma sé sú að gjósa muni í Bláfjöllum og svo eftir nokkurn tíma muni einnig gjósa á þingvöllum. Ef upp kemur gos í Bláfjöllum líst Guðrúnu ekki á stöðuna hvað Reykjavík varðar og sér í lagi Breiðholt. Varðandi mögulegt hraunflæði að Reykjanesbraut eða Vogum vegna eldgosa á Reykjanesi segir Guðrún að hún sjái það ekki gerast í náinni framtíð að hraun ógni þeim stöðum. Hún segir að fluttvar verði inn rafstöðvar í gámum vegna jarðhræringanna á Reykjanesi sem verða nýttar til þess að reyna að koma á rafmagni á svæðið verði orkuinnviðin fyrir tjóni af völdum eldgosa.
Áfallahjálpin mikilvæg
Börn Grindvíkinga munu komast í skóla og þó áfallið sé mikið núna þá eigi það eftir að hafa mun víðtækari áhrif börnin seinna meir og þá þurfa menn að vera viðbúnir til þess að veita áfallahjálp. Þá sé það svo að ekki verði hægt að koma öllum börnum úr Grindavík í sama skóla á stór Reykjavíkursvæðinu og ljóst að það mun hafa andleg áhrif að geta ekki hitt sína félaga og vini í skólanum, mikilvægt sé að hlúa vel að þessum börnum.
Ríkisstjórnin springur
Sem fyrr segir mun ríkisstjórnin springa vegna mikillar reiði í kjölfar náttúruhamfaranna í Grindavík. Guðrún segir að það sé það sem muni fylla mælinn og bætast ofan á að landinu hafi undanfarin misseri verið hreinlega illa stjórnað og vaxtahækkanir þjaki fólk, líkja megi því ástandi sem verður við það sem var uppi 2008, í raun sé allt komið í þrot. Hún segir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur fjármálaráðherra ekki stjórna fjármálum landsins í raun, heldur sé það Bjarni Benediktsson sem stjórni á bak við tjöldin og staðan sé ekki eins góð og látið sé í veðri liggja. Verið sé að eyða miklu fé í hernað og loftslagsmál. Auk þess sé miklu fé varið til málefna hælisleitenda. Einnig sé verið að senda mikið fé til Úkarínu og fólk geri sér hreinilega ekki grein fyrir hversu mikið fé hafi farið það. Búið sé að tæma sjóði til þess að spreða fé úti um allar koppagrundir og segir Guðrún að til dæmis megi nefna hamfarasjóð í því sambandi. Fólk muni ekki sætta sig við að skattar séu hækkaðir til að mæta náttúruhamförum í stað þess að sækja fé í sjóði sem ætlaðir eru til þess að taka slík högg.
Alþingi óstarfhæft og ríkisstjórnin springur fyrir jól – Fjórir flokkar stjórna til bráðabirgða
Guðrún segir þingið vera í raun og veru óstarfhæft og almenningur muni gera kröfu um það að blásið verði til kosninga. annað hvort sé það þannig að stjórnin sé búin að vera og blásið verði til kosninga eða það verði mynduð önnur stjórn til bráðabirgða á meðan þetta ástand ríkir, það hafi átt að fela misnotkunina á sjóðunum fyrir þjóðinni og fólk mun ekki sætta sig við það. hún segir að það muni koma að því að í ljós komi hvernig spillingin sé í raun og veru á Íslandi, sú spilling teygi sig inn í stjórnmálin. Togstreita muni koma upp hjá ríkisstjórninni vegna þess að aðilar innan hennar hafi verið að leyna hlutum sem varðar fjármál ríkisins fyrir meðstjórnendum. Í því sambandi mun Lilja Alfreðsdóttir sýna klærnar og láta heyra í sér og með því bjarga Framsóknarflokknum.
Ekki öll kurl komin til grafar í bankasölunni
Guðrún segir ekki öll kurl komin til grafar hvað varðar söluna á Íslandsbanka og þar muni meira koma í ljós eftir því sem á líður. Guðrún segir að reynt verði að halda áfram með söluna á bankanum en það muni ekki ganga upp.
Símaupptaka kemur upp um Bjarna Ben og Þórdísi Kolbrúnu
Símaupptaka mun koma af stað hneykslismáli þegar upptakan verður gerð opinber en hún mun varpa ljósi á að Bjarni Benediktsson og Þórdís Kolbrún fari í raun með stjórn sinna ráðuneyta í sameiningu þó þau komi fram út á við að svo sé ekki. Katrín mun einnig koma við sögu í hneykslismáli sem varðar félagsskap erlendra leiðtoga og tengist málið einhvers konar yfirráðum. Hún mun þó ekki þurfa að axla ábyrgð enda sé það ekki vaninn hér á landi að neinn taki ábyrgð. Guðrún segir að henni finnst eins og eftir næstu kosningar verði alger uppstokkun. kosningar verða á fyrst mánuðum ársins segir Guðrún og segir að þar komi upp mánuðirnir febrúar eða mars.
Flokki fólksins, Viðreisn, Framsókn og Pírötum mun ganga vel
Hún segir að Flokkur fólksins muni vaxa mikið sem og Viðreisn. Framsóknarflokknum og Pírötum mun einnig ganga vel. Hún segir að upp komi einhver óánægja með Kristrúnu Frostadóttur formann Samfylkingarinnar og segir Guðrún að Logi Einarsson verði beðinn um að taka við keflinu sem formaður á ný.
Hún segir að í næstu kosningum verði mikið af nýju fólki sem komi inn í stjórnmálin og þar sé unga fólkið að láta mjög til sín taka. Ný stjórnmálaöfl munu koma fram sem vilja taka sérstaklega á húsnæðismálunum. Þá segir Guðrún að staða öryrkja verði tekin til skoðunar og í framhaldinu verði staða þeirra bætt þó ekki séu til miklir peningar. Til dæmis verður ungum öryrkjum gert kleift að reyna fyrir sér á vinnumarkaði. Krafa verður gerð um að verðtryggingin verði lögð niður og vextir verði lækkaðir og það mun ná fram að ganga með þrýstingi af hálfu verkalýðshreyfingarinnar. Ásgeir seðlabankastjóri mun vera látinn fjúka innan skamms og segir Guðrún að það muni gerast vegna þess að hann haldi áfram að hækka vexti, þessi staða geti gerst innan nokkurra daga. Hún segir að stjórnmálamenn innan Sjálfstæðisflokksins og fjármálamenn sem Ásgeir þekki frá fyrri tíð stjórni hans gjörðum.
Augnskanni í Leifsstöð tekinn aftur í notkun
Í sambandi við aukningu glæpa segir Guðrún að sú sýn hafi komið til hennar í gær að augnskanni sem tekinn var úr notkun í leifsstöð verði tekinn aftur í notkun ef hann finnst. Þannig verður tekið á því hverjir séu að koma til landsins og þannig reynt að stemma stigu við glæpum.
Átökin í miðausturlöndum
Um suðupottinn í miðausturlöndum segir Guðrún að gerð verði krafa frá alþjóðasamfélaginu um vopnhlé og konur og börn fái að fara frá átakasvæðunum í Palestínu. Friður verði í nokkra daga og svo noti Ísraelar vopn sín til þess að þurrka svæðið út. Hún segir að á einhverjum tímapunkti muni Egyptar fara að skipta sér af átökunum. Segir Guðrún að í heildina muni stríðið standa yfir í um sex vikur svo líklegt sé því að stríðinu muni ljúka innan skamms. Hún segir neðanjarðargöng Hamas liða tengjast við stærsta sjúkrahúsið á Gaza og því miður séu þeir að nýta sér þá stöðu að sjúkrahús eigi að vera griðastaður. Ísraelar muni ná Hamas liðunum að lokum en Ísrael kunni að vera í hættu þegar yfir lýkur vegna framgöngu sinnar.
Trump verður forseti
Að lokum rýndi Guðrún aðeins í stjórnmálin í Bandaríkjunum og segir Guðrún að Donald Trump verði forseti Bandaríkjanna á ný og muni ekki lenda á bak við rimlana eins og óvinir hans höfðu óskað sér.
Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan