Spár ríkisstjórnarinnar um hagvöxt byggðar á úreltum gögnum

Það er mjög varhugavert að treysta á spár ríkisstjónarinnar og Seðlabankans um hagvöxt þar sem þær byggja oft á gögnum sem eru úrelt. Þetta segir Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu en hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Spár um hagvöxt eru ónákvæmar

Björn telur að þessar spár séu ónákvæmar og skapi óraunhæfar væntingar bæði hjá stjórnvöldum og almenningi. Spár um hagvöxt séu í raun aðeins tilgátur sem oft byggja á úreltum gögnum, og það sé varhugavert að treysta þeim sem vísindalegri leiðsögn fyrir ákvarðanir um ríkisfjármál. Í stað þess vill hann að stjórnvöld horfi til langtímameðaltala sem endurspegla stöðugri og raunhæfari mat á þróun efnahagslífsins.

Breytingarnar verða ekki fyrr en þessi ríkisstjórn verður farin frá

Þá gagnrýnir Björn ríkisfjármálastefnuna harðlega. Það sé sértaklega gagnrýnivert að loforð um umfangsmiklar breytingar séu settar fram en framkvæmd þeirra verði ekki fyrr en eftir að núverandi ríkisstjórn verður farin frá. Hann telur þetta ósanngjarnt gagnvart komandi stjórnvöldum sem þurfi að axla þá ábyrgð og að slík loforð skapi falskar væntingar hjá kjósendum. Björn segir að slík loforð setji of mikla fjárhagslega byrði á framtíðina án þess að tekin sé full ábyrgð á þeim af núverandi ríkisstjórn.

Vaxtahækkun Seðlabankans hefur ósanngjörn áhrif á almenning

Þá segist Björn hafa áhyggjur af vaxtahækkunum Seðlabankans á heimilin í landinu, sérstaklega þau sem eru skuldsett. Hann bendir á að þessar vaxtahækkanir, sem eiga að vinna gegn verðbólgu, hafi ósanngjörn áhrif á almenning þar sem aukin vaxtabyrði leggi enn meira álag á heimilin. Hann bendir á að það séu ekki alltaf hagkvæmustu lausnirnar sem ná fram að ganga, heldur þvert á móti þær sem leggja aukna áhættu á viðkvæmustu hópana.

Seðlabankinn á ekki að stjórna hagkerfinu

Björn Leví bendir á að núverandi kerfi sem stjórnvöld styðjast við, þar sem Seðlabankinn ber mikla ábyrgð á efnahagsstjórninni, sé ekki til þess fallið að skapa jafnvægi í hagkerfinu. Hann bendir á að stjórnvöld ættu sjálf að beita fleiri hagstjórnartækjum til að draga úr verðbólgu og létta byrðar af almenningi, í stað þess að láta Seðlabankann einan um að takast á við vandann með vaxtahækkunum. Að mati Björns er núverandi ástand merki um ósanngjarnt kerfi þar sem þeir sem ráða yfir mestu fjármagninu njóta mestrar verndar, á meðan almenningur og skuldsett heimili bera hitann og þungann af efnahagslegum sveiflum.

Kallar eftir breyttri hugsun á efnahagsstjórn

Björn kallar eftir breyttri hugsun á efnahagsstjórn þar sem stjórnvöld taki beinni ábyrgð og geri áætlanir sem virka bæði í skammtíma- og langtímasamhengi, frekar en að treysta á spár sem oft reynast ónákvæmar og valda almenningi vonbrigðum þegar þær standast ekki.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila