Staða heimilanna mjög alvarleg og heldur áfram að versna

Staða heimilanna er mjög alvarleg og heldur áfram að versna, því þarf að grípa til aðgerða strax ef ekki á illa að fara. Þetta segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og alþingismaður Flokks fólksins en hún ásamt Ragnari Þór Ingólfssyni formanni VR var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu en hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

Vanskil á hraðri uppleið

Ásthildur bendir á að afborganir húsnæðislána hafi tvöfaldast hjá mörgum fjölskyldum og að vanskil séu á hraðri uppleið. Staðan sé orðin svo slæm að fólk standi frammi fyrir því að missa heimili sín eða lenda í greiðsluerfiðleikum sem það ræður ekki við.

Stór hluti þjóðarinnar glímir við ósjálfbæran húsnæðiskostnað

Hún segir að þessi þróun, þar sem stór hluti þjóðarinnar glímir við ósjálfbæran húsnæðiskostnað, minni um margt á ástandið fyrir hrun 2008. Hún bendir á að fjölmargar fjölskyldur séu þegar komnar í vanskil og að margar þeirra séu í þeirri stöðu að þær hafi engin önnur úrræði en að taka verðtryggð lán, sem þó leysi vandann ekki nema tímabundið.

Það verður að setja neyðarlög

Til að takast á við þessa stöðu telur Ásthildur Lóa nauðsynlegt að stjórnvöld grípi til neyðarlaga. Hún kallar eftir því að tafarlausar aðgerðir verði settar í gang til að lækka vexti og koma á stöðugleika á lánamarkaði. Hún segir að ríkisstjórnin geti ekki beðið lengur, því að fólkið í landinu sé þegar farið að sökkva í fjárhagslegar ógöngur sem það muni eiga erfitt með að komast úr.

Lækka þarf vexti markvisst næstu sex mánuði

Ásthildur vill að neyðarlögin feli í sér að vextir verði lækkaðir strax og markvisst á næstu sex mánuðum í 6%. Fólk þurfi að fá skýr skilaboð um að það sé úrræði í sjónmáli og að stjórnvöld séu tilbúin til að grípa inn í til að koma í veg fyrir enn meiri vanskil. Hún telur að þetta sé eina leiðin til að tryggja fjármálastöðugleika fyrir heimilin.

Seðlabankinn virðist ekki starfa í þágu fólksins

Hún gagnrýnir einnig Seðlabankann fyrir að beina athygli sinni einungis að því að vernda banka og fjármálakerfið á kostnað almennings. Hún segir að Seðlabankinn virðist ekki starfa í þágu fólksins í landinu og að vaxtahækkanirnar séu að keyra fólk í greiðsluerfiðleika og vanskil. Þessi stefna sé ekki sjálfbær og stjórnvöld verði að grípa inn í til að verja heimilin.

Verður að koma í veg fyrir fjölda gjaldþrota

Ef ekkert verði að gert, varar Ásthildur við að ástandið gæti endað með miklum efnahagslegum skaða, þar sem fleiri og fleiri heimili missa tökin á fjármálum sínum. Hún ítrekar að neyðarlög séu nauðsynleg til að koma í veg fyrir fjölda gjaldþrota og efnahagslega óvissu sem mun bitna verst á almenningi.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila