Stefna að mannlegri þjónustu með nýtingu velferðartækni

Í nýrri aðgerðaáætlun Velferðartæknismiðjunnar fyrir árin 2022 og 2023 eru fjögur skýr meginmarkmið um hvernig nýta eigi velferðartækni í þjónustu velferðarsviðs og tímasettar aðgerðir með hverju þeirra. Aðgerðaáætlunin byggir á nýrri stefnu Reykjavíkurborgar um velferðartækni sem kom út í maí og gildir til ársins 2026.

Velferðartæknismiðjan hefur það hlutverk að prófa velferðartækni í þeirri þjónustu sem velferðarsvið Reykjavíkurborgar veitir. Fjögur meginmarkmið má lesa úr aðgerðaáætluninni Velferðartæknismiðjunnar: Reykjavíkurborg verði leiðandi við innleiðingu velferðartækni, íbúar fái tækifæri til að huga að eigin heilsu með aðstoð velferðartækni, velferðartækni verði fyrsti valkostur í veitingu þjónustu og þjónustan verði mannlegri með nýtingu velferðartækni. Aðgerðaáætlunina má skoða hér.

Margir tilbúnir til þess að tileinka sér tæknina

Svanhildur Jónsdóttir, teymisstjóri Velferðartæknismiðjunnar, segir að leiðarljósið sé að auka fjölbreytileika í þeirri þjónustu sem velferðarsvið veitir.

„Við stöndum frammi fyrir miklum breytingum á næstu árum, svo sem þeim að eldra fólki er að fjölga mjög hratt. Við viljum veita öllum góða þjónustu og liður í að geta gert það er að nýta velferðartækni sem best. Mjög margt fólk sem velferðarsvið veitir þjónustu er nú þegar tilbúið að tileinka sér tæknina, ekki síst þar sem við leggjum upp úr því að hún sé einföld og aðgengileg, og það er alveg ljóst að þeim mun fjölga með tímanum sem finnst sjálfsagt að nýta tæknina í daglegu lífi.“  segir Svanhildur

Sumir spyrja sig hvort velferðartækninni sé ætlað að koma í staðinn fyrir mannleg samskipti, sem Svanhildur segir af og frá.

„Markmiðið er þvert á móti auka fjölbreytileika í þjónustu og bæta hana. Ef við notum velferðartækni vel getur verðmæta starfsfólkið okkar sinnt því sem mikilvægast er, frekar en því sem auðvelt er að sinna með öðrum hætti. Við höfum talað um „heitar hendur á réttum stöðum“ í þessu samhengi. Eitt af markmiðunum okkar er að vera mannleg og liður í því er að taka mjög reglulega púlsinn á því hvort fólk, bæði notendur og starfsfólk, sé ánægt með tæknina.“ segir Svanhildur.

Áhersla lögð á alþjóðlegt samstarf

Ísland er ekki eyland þegar kemur að innleiðingu velferðartækni í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Því er lögð mikil áhersla á alþjóðlegt samstarf á vettvangi Velferðartæknismiðjunnar.

„Við horfum sérstaklega til hinna Norðurlandanna og höfum til dæmis bæði farið og heimsótt sveitarfélög í Noregi og Danmörku á þessu ári, til að skoða hvernig þessum málum er háttað þar. Við leggjum áherslu á að vera í góðu sambandi og lært hvert af öðru, hratt og örugglega.“

Notendur velferðarþjónustu heimsóttir í gegnum skjáinn

Svanhildur segir að þegar tekin sé ákvörðun um hvaða tækni fer í prófanir séu þrír þættir hafðir að leiðarljósi: Hvort tæknin bæti starfsumhverfi starfsfólks, hvort hún bæti lífsgæði notenda þjónustunnar og hvort hún feli í sér sparnað.

„Við byrjum á að skoða þarfirnar og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Í framhaldi af því leitum við að tækni sem gæti leyst þær áskoranir.“ segir Svanhildur að lokum.

Lögð er áhersla á velferðartækni, sem hefur þjónustu til viðbótar við tæknina. Ef tekið er dæmi af því hvernig lyfjaskammtarar virka, þá fá íbúar lyfjaskammtara inn á heimilið sitt og í þá eru settar lyfjarúllur með skömmtuðum lyfjum frá apóteki. Lyfjaskammtarinn lætur íbúa vita með hljóði og raddmerki hvenær tími er kominn til að taka lyfin. Ef lyfin eru ekki tekin af íbúum innan ákveðins tímaramma fær starfsfólk í heimastuðningi skilaboð og geta þá brugðist við. Lyfjaskammtararnir eru einmitt annað tveggja verkefna sem hafa verið í prófunarfasa en er nú verið að innleiða í allri þjónustu velferðarsviðs. Hitt verkefnið séu umræddar skjáheimsóknir sem að sögn Svanhildar sé mikil ánægja með.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila