Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp sem á að kortleggja og samræma fyrirkomulag varðandi aðkomu heilbrigðisstarfsfólks þegar upp kemur grunur um kynferðisofbeldi í garð barna. Markmiðið er tryggja rétt viðbrögð heilbrigðisþjónustunnar með hag barnanna að leiðarljósi. Hópnum er m.a. ætlað að skýra boðleiðir milli lögreglu, barnaverndar og heilbrigðiskerfisins að veita yfirsýn yfir núverandi stöðu mála.
Starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra skilaði ráðherra skýrslu í lok síðasta árs með tillögum að samræmdu verklagi í heilbrigðisþjónustu á landsvísu til handa fullorðnum þolendum kynferðisofbeldis. Hópurinn benti jafnframt á að ekki sé fyrir hendi samræmt verklag um heilbrigðisþjónustu við börn yngri en 18 ára vegna kynferðisofbeldis og lagði til að ráðist yrði í vinnu við slíka samræmingu. Hópurinn sem ráðherra hefur skipað í því skyni mun m.a. taka til skoðunar hvaða heilbrigðisstarfsfólk kemur að þessum málum, hvernig tryggja megi tímanlega læknisskoðun barna þegar grunur er um kynferðisofbeldi, hvar slík skoðun fer fram og hvernig staðið er að öflun gagna, varðveislu þeirra og skráningu upplýsinga.
Sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu mun leiða starf hópsins en í honum sitja einnig fulltrúar félags- og vinnumálaráðuneytisins, mennta- og barnamálaráðuneytisins, héraðssaksóknara, ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, lögreglustjórans á Suðurnesjum, Félagsþjónustu Grindavíkur, Barnavernd Reykjavíkur og Barnahúss.
Gert er ráð fyrir að hópurinn skili niðurstöðum til ráðherra fyrir 15. október næstkomandi.