Stjórnmálamenn með sýndarmennsku í málefnum hælisleitenda

Framganga stjórnmálamanna hvað varðar málefni hælisleitenda einkennist fyrst og fremst af sýndarmennsku og á ekkert skylt við neina mannúð gagnvart hælisleitendum í neyð. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Sigmundur segir að það fólk sem hafi sig í frammi í þessum málaflokki leggi sig fram við það að sýnast að það sé gott og sýni mannúð en það sé hins vegar þannig að það sé engin mannúð fólgin í því kerfi sem sé ríkjandi hér í þessum málaflokki. Kerfið ýti fyrst og fremst undir glæpastarfsemi sem felst í því að selja hælisleitendum ferðir til Vesturlanda og í sumum tilfellum sé ekkert annað en um mansal að ræða. Þetta sé til þess fallið að setja fólk í hættu og geri íslendingum ókleift að hjálpa flestum þeirra sem séu í mestri neyð.

Svo taki Reykjavíkurborg sem sé á hausnum upp á því núna að undirrita samkomulag um að taka á móti 1500 hælisleitendum á næsta ári og fjölga þar með borgarbúum um 1% án þess að hafa nokkra hugmynd um hvernig eigi að framkvæma það, til dæmis hvernig eigi að finna húsnæði handa þessu fólki eða hvernig eigi að fjármagna þetta allt.

Sigmundur segir þetta nokkuð ólíkt þeim glærusýningum meirihlutans að því leytinu til að þessi móttaka verði að veruleika og að þetta fólk muni koma óháð því hvort það séu tilbúnar fyrir það íbúðir eða ekki og hvort sem það sé til fjármagn eða ekki.

„þarna er blásið til blaðamannafundar með yfirlýsingum um þessa 1500 einstaklinga og enginn virðist vita hvernig eigi að framkvæma þetta eða hver eigi að fjármagna þetta, ætlar ríkið að gera það? það sést ekki í fjárlögunum, eða ætlar borgin að fjármagna það þegar hún hefur ekki efni á því? Hvernig ætlar borgin að finna húsnæði því nú er til dæmis Hafnarfjörður sem hefur tekið á móti talsverðum fjölda þó það sé ekkert í líkingu við þetta í stökustu vandræðum með að finna ekki bara íbúð heldur herbergi fyrir þetta fólk fyrir tugi þúsunda á mánuði“segir Sigmundur.

Hann segir fyrst og fremst um skrautsýningu að ræða af hálfu meirihlutans í borginni, skrautsýningu sem muni hafa afleiðingar. Stóra vandamálið sé hversu mikið stjórnmálamenn leggi sig fram við að koma með yfirlýsingar án innihalds.

Katrín ætlar að pakka hælisleitendavandanum í nýjar umbúðir

Í þættinum greindi Sigmundur frá þeim áformum Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra sem hefur nú skipað starfshóp sem ætlað er að finna leiðir til þess að rýmka ákvæði laga sem varða útgáfu dvalarleyfa á grundvelli atvinnuþátttöku. Vinnuhópnum sé ætlað að einbeita sér að tveimur atriðum, að útvíkka efnisreglur gildandi laga og hins vegar ráðast í kerfisbreytingu á stjórnsýslu dvalar og atvinnuleyfa og sameina undir einn hatt. Sigmundur bendir á að þetta þýði að grauta eigi saman útdeilingu dvalarleyfa til dæmis á grundvelli hælisumsókna og atvinnuleyfum.

„með öðrum orðum þá erum við með þetta gríðarstóra vandamál hérna sem er að hér er meiri aðsókn í hæli en í nokkru öðru landi í Evrópu hlutfallslega og hvernig ætlar ríkisstjórnin að taka á því? jú hún ætlar að endurskilgreina vandann, pakka honum í nýjar umbúðir og taka saman í eitt, umsóknir um dvalarleyfi og atvinnuleyfi óháð því hvaðan fólk kemur sem þýðir að fólk sem kemur hingað í leit að hæli geti sagt að það sé hingað komið til að leita að vinnu, þarna virðist Ísland stefna í að verða fyrsta vestræna ríkið sem opnar bara fyrir hverjum sem er hvaðan sem er úr heiminum og breytir hælisleitendamálum í einhvers konar auðlind til þess að fá ódýrt vinnuafl, þetta er svo galið að það tekur engu tali“ segir Sigmundur.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila