Stjórnsýslan í hvalveiðimálinu fyrir neðan allar hellur

Sú stjórnsýsla sem er viðhöfð í hvalveiðimálinu er fyrir neðan allar hellur og málið endurspeglar í raun þann vandræðagang sem einkennir ríkisstjórnina í nánast öllum málum. Þetta segir Guðmundur Árni Stefánsson varaformaður Samfylkingarinnar en hann var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur í dag.

Guðmundur Árni segir að það muni ekki skipta máli hvaða niðurstöðu Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir mun komast að í málinu og mun upplýsa um á þriðjudag. Það er nú þegar heil vertíð farin í súginn vegna seinagangs við afgreiðslu veiðileyfis til Hvals hf. Málið sé dæmigert fyrir það úrræðaleysi og vandræðagang sem einkenni þessa ríkisstjórn.

Svandís hefði átt að segja af sér

Guðmundur Árni segir að hann hafi leitað svolítið eftir mótmælum þeirra sjálfstæðismanna sem fóru mikinn í fyrra vegna ákvörðunar Svandísar Svavarsdóttur um hvalveiðibann en nú þegi þessir þingmenn þunnu hljóði. Hann segist aðspurður um hvort það hefði ekki verið eðlileg niðurstaða að Svandís hefði sagt alveg af sér þegar málið kom upp í fyrravor segir Guðmundur að það hefði verið eðlilegt en það sé lenska í þessari ríkisstjórn að ráðherrar segi ekki af sér heldur skipti bara um stóla. Það sé ekki það sama og að segja af sér. Bjarni Benediktsson hefði farið þessa sömu leið vegna Íslandsbankamálsins og þá hafi Þórdís Kolbrún einnig gert þegar upp komst að Landsbankinn hefði keypt TM. Í því máli virðist Þórdís Kolbrún hafa nánast verið eina manneskjan á landinu sem ekki hefði vitað af þessum fyrirhugðu kaupum bankans á Tryggingamiðstöðinni.

Þá birtist úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar einnig í efnahagsmálunum og segir Guðmundur það furðu sæta að Íslendingar skuli enn búa við það eftir 13 til 14 vaxtahækkunartímabil að vextir í landinu séu upp á 9,25% okurvexti. Guðmundur bendir á að á árum áður hefðu menn verið settir í steininn fyrir slíka okurvexti því þá voru lög sem settu há mark á leyfilega vexti til að koma í veg fyrir okurverxti. .

Hlusta má á nánari umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila