Stúdentar spyrja hvort háskólamenntun sé í hættu

Landssamband Íslenskra Stúdenta (LÍS) hefur ýtt úr vör herferð vegna  endurskoðunar á lögum um Menntasjóð námsmanna. Yfirskrift herferðarinnar er Háskólamenntun í hættu og er markmiðið að vekja athygli á vandamálum í íslenska námslánakerfinu og afleiðingar þeirra fyrir stúdenta, háskólamenntaða og samfélagið í heild.

„Það er hægt að finna húsnæðislán á betri kjörum en námslán og fjöldi þeirra sem sækja um námslán hefur fækkað um helming á síðustu árum. Vextir námslána hafa aldrei verið hærri og íslendingar eiga evrópumet yfir fjölda háskólanema sem  fullyrða að án launaðrar vinnu gætu þau ekki verið í námi. Þá hafa töluvert færri sótt sér háskólamenntun á Íslandi en á öðrum norðurlöndum.“segir í yfirlýsingu frá (LÍS)

Í nýútgefinni skýrslu frá OECD kemur fram að 41,9% ungs fólks á aldrinum 25-34 ára hafa aflað sér háskólamenntunar á Íslandi, samanborið við 49% í Danmörku, 49,2% í Svíþjóð og 55% í Noregi. 

„LÍS telur þessar staðreyndir, auk fjölda annarra vankanta Menntasjóðs námsmanna, tilefni til að spyrja mikilvægra spurninga um aðgengi landsmanna að háskólamenntun. Ráðamenn þurfa að svara eftirfarandi spurningu: Fyrir hverja er í boði að mennta sig?“

Í síðdegisútvarpinu í dag ræddi Arnþrúður Karlsdóttir við Alexöndru Ýr Van Erven forseta Landssambands stúdenta en í þættinum útskýrði Alexandra þessa erfiðu stöðu sem stúdentar og háskólanemar eru í. Hún bendir á að í Noregi séu mun fleiri sem sæki nám í háskóla hlutfallslega heldur en hér á landi og helsta skýringin sé sú hversu þungur baggi námslán séu fólki. Fólk sé hreinilega hætt að sækja um námslán vegna hárra vaxtra og því eðlilegt að spurt sé hvaða áhrif það kunni að hafa á samfélagið til framtíðar ef fólk kýs að sleppa því að fara í háskólanám eingöngu vegna þess að ekki sé betur búið um hnútanna.

Hlusta má á þáttinn hér að neðan

Deila