Styðja sérstaklega við heyrnarlaust flóttafólk, fötluð börn af erlendum uppruna og hinsegin flóttafólk

Stutt verður sérstaklega við heyrnarlaust flóttafólk sem leitað hefur skjóls á Íslandi, fötluð börn af erlendum uppruna og hinsegin flóttafólk. Þetta er efni þriggja samninga sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur undirritað við Félag heyrnarlausra, Landssamtökin Þroskahjálp og Samtökin 78.

Heyrnarlaust flóttafólk

Í tilkynningu segir að heyrnalausu flóttafólki hafi fjölgað hratt hér á landi og inngilding þess krefjist sérfræðiþekkingar sem Félag heyrnarlausra býr yfir. Félagið tekur samkvæmt samningi að sér að styðja við heyrnarlaust flóttafólk á Íslandi. Markmiðið er að auka félagslega virkni þess og færni í íslensku táknmáli og veita því þannig stuðning til þátttöku í íslensku samfélagi, meðal annars með þátttöku á vinnumarkaði.

Félag heyrnarlausra mun einnig fræða fagfólk sem vinnur með flóttafólki um þarfir heyrnarlausra flóttamanna. Samningurinn er að upphæð 8 milljónum króna og gildir líkt og hinir samningarnir til ársloka 2023.

Fötluð börn af erlendum uppruna og aðstandendur þeirra

Þá segir að Landssamtökin Þroskahjálp hafi tekið að sér að efla stuðning við fötluð börn af erlendum uppruna og aðstandendur þeirra. Þroskahjálp hafi verið leiðandi í inngildingu fatlaðra innflytjenda og flóttafólks í íslenskt samfélag og hafa samtökin á undanförnum árum byggt upp töluverða reynslu og þekkingu í vinnu með innflytjendum og flóttafólki.

Þroskahjálp mun einnig sjá um fræðslu og ráðgjöf til fagaðila, sem vinna með flóttafólki, um stöðu fatlaðs flóttafólks og mikilvægi inngildingar þess í samfélagið, þar með talið möguleika til atvinnuþátttöku. Samningurinn hljóðar upp á 8 milljónir króna.

Hinsegin flóttafólk

Í tilkynningunni segir einnig frá því að Samtökin 78 hafi á undanförnum árum unnið mikið með hinsegin flóttafólki, bæði hvað varðar ráðgjöf og félagsstarf, auk þess að standa fyrir margvíslegri fræðslu um sérstöðu hinsegin flóttafólks. Samkvæmt samningi sem hefur verið undirritaður munu samtökin sinna fræðslu fyrir hinsegin flóttafólk um réttindi þess hér á landi og þann stuðning sem því stendur til boða.

Samtökin taka jafnframt að sér að sjá um fræðslu til þeirra aðila sem veita hinsegin flóttafólki þjónustu. Áhersla verður lögð á sérstöðu hinsegin flóttafólks og þann sértæka stuðning sem talið er fólkinu nauðsynlegur. Upphæð samningsins er 1,5 milljónir króna.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

„Það er mikilvægt að virkja þann dýrmæta mannauð sem innflytjendur og flóttafólk koma með sér til Íslands. Fólkið tekst á við margvíslegar og mismunandi áskoranir í nýjum heimkynnum en sumir hópar þurfa sértækan stuðning til að blómstra. Samningunum þremur er ætlað að mæta því og styðja við heyrnarlaust flóttafólk, fötluð börn af erlendum uppruna og hinsegin flóttafólk.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila