Úthlutun úr Loftslagssjóði fór fram á dögunum en þetta er í fjórða sinn sem úthlutað er úr sjóðnum sem heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Yfirlýst hlutverk Loftslagssjóðs er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Við úthlutun þessa árs var lögð áhersla á verkefni sem talin eru skila samdrætti í losun og stuðla að sjálfstæðu landsmarkmiði Íslands um að draga úr losun á beinni ábyrgð Íslands um 55% (miðað við árið 2005) fyrir 2030, sem og hagnýta grunnþekkingu sem þegar er til staðar og getur gagnast við að draga úr losun sem víðast í samfélaginu.
Alls bárust 65 umsóknir í sjóðinn og var sótt alls um rúmar 715 milljónir króna. Þar sem mjög fáar umsóknir féllu að áherslum stjórnar að þessu sinni, eins og þær voru settar fram í handbók, var ákveðið að styrkja aðeins tvö verkefni um rúmar 26 milljónir króna. Þau verkefni sem hlutu styrk að þessu sinni eru framleiðsla á endurnýjanlegum kolefnisneikvæðum byggingarvörum með því að endurvinna gler og byggingarúrgang og orkusparnaður á togveiðiskipum.
Heiti verkefnis | Aðalumsækjandi | Styrkupphæð (kr.) |
Framleiðsla á endurnýjanlegum kolefnisneikvæðum byggingarvörum með því að endurvinna gler og byggingarúrgang. | Rockpore ehf. | 11.240.000 |
Orkusparnaður á togveiðiskipum | Optitog ehf | 15.000.000 |