Sveitarfélög í Svíþjóð beita neitunarvaldi til að stöðva byggingu vindorkuvera

Myndin sýnir vindorkuver sem hrundi til jarðar af sjálfu sér fyrir utan Härnösand í júlí. Þúsundir lítrar glussaolíu láku út í umhverfið og talin var hætta á umhverfisslysi ef olían kæmist í grunnvatnið (skjáskot Youtube).

Nota neitunarvald til að stöðva neikvæð áhrif á dýralíf, röskun vistkerfisins, skerðingu eigna bæjarbúa og slæm áhrif á ferðaþjónustu

Bæjarstjórn Norrköping ákvað í dag að beita neitunarvaldi sveitarfélagsins gegn vindorkuumsókn fyrirtækisins Holmen. Umsóknin náði upphaflega til 78 vindmyllna innan sveitarfélaganna Finspång og Norrköping. Sveitarfélagið Finspång hefur áður beitt neitunarvaldi gegn Holmen. Eftir tveggja ára vinnu við vindorkumálið hefur bæjarstjórn Norrköping nú einnig ákveðið að ekki eigi að reisa vindmyllur í sveitarfélaginu.

Holmen vildi koma á vindorku í Finspång og Norrköping og hefur verið til í 272 ár og er fyrirtæki, sem er mikilvægt fyrir Norrköping. Og á mánudagsmorgun urðu miklar umræður í bæjarstjórn Norrköping um hugsanlegt neitunarvald gegn fyrirhugaðri stofnun Holmen á nýjum vindorkuiðnaði í sveitarfélaginu, eitthvað sem ný bæjarstjórn hafði lagt til.

Í viljayfirlýsingu bæjarstjórnar er sjónum beint að því, að vindorkuiðnaður stuðli að neikvæðum áhrifum á dýrategundir og náttúrulegt umhverfi, skerði verðmæti nærliggjandi eigna, hafi neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni (röskun vistkerfisins), skaðleg áhrif á heilsufar nærliggjandi íbúa, áhrif á landslagið og í framhaldi af því hugsanlega ferðaþjónustu, neikvæð umhverfisáhrif m.a. í löndum þar sem hráefni í vindmyllurnar eru framleidd, eins og skógareyðing Amazon-regnskóga.

Tekið er sérstaklega fram að raunverulega þurfi raforkukerfi, sem tryggir að heimili, skólar, sjúkrahús og vinnustaðir hafi rafmagn allan sólarhringinn alla daga ársins án þess að skaða dýr, náttúru, fólk eða umhverfi.

Vinstri menn ásökuðu hægri bæjarstjórn um misheppnaða orkustefnu fyrri vinstri ríkisstjórnar Svíþjóðar

Rétt fyrir klukkan 13 á mánudaginn ákvað sveitarstjórn að beita neitunarvaldi sveitarfélagsins. 45 fulltrúar greiddu með tillögu bæjarstjórnar og 40 voru á móti. Þeir aðilar sem stóðu að ákvörðuninni um að beita neitunarvaldinu voru Svíþjóðardemókratar, Kristdemókratar, Móderatar og Frjálslyndir.

Stjórnarandstaðan með krötum í fararbroddi var að vonum óhress með ákvörðunina og réðst á Svíþjóðardemókrata og kenndi þeim um himinhátt raforkuverð í Svíþjóð. Olle Vikmång sósíaldemókrati sagði:

„Rétt eins og þið, þá erum við með nokkuð stóran kjósendahóp í okkar atvinnugreinum. Hvað segið þið til allra starfsmanna pappírsframleiðenda í Norrköping sem eiga á hættu að missa störfin vegna hás raforkuverðs í Svíþjóð? Og sem er algjörlega háð aukinni raforkuframleiðslu í Suður-Svíþjóð?“

Christopher Jarnvall frá Svíþjóðardemókrötum vísaði þá til þess, hvernig vinstri menn hefðu eyðilagt orkumálin á landsvísu í fyrri ríkisstjórn Svíþjóðar og einnig þyrfti bæjarstjórn að hlusta á íbúana og tryggja að eignir þeirra minnkuðu ekki í verði:

„Vinstrimenn undir forystu Jafnaðarmannaflokksins hafa eyðilagt orkuáætlanir landsins.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila