Svindla sterkir skákmenn?

Dagur Ragnarsson til vinstri og Ingvar Þór Jóhannesson til hægri

Ingvar Þór Jóhannesson FIDE meistari og landsliðsþjálfari kvenna í skák og Dagur Ragnarsson  nýbakaður alþjóðlegur meistari voru gestir Kristjáns Arnar Elíassonar alþjóðlegs skákdómara í skákþætti hans Við skákborðið á Útvarpi Sögu í dag.

Þeir félagarnir fóru yfir þær kröfur sem Alþjóðaskáksambandið FIDE setur um árangur til að hljóta nafnbótina alþjóðlegur meistari í skák. Þeir greindu frá muninum á lokuðum mótum, þar sem allir keppa við alla og allar umferðirnar eru paraðar fyrir fram, og opnum mótum (svissneska kerfið) þar sem mun fleiri taka þátt, fá andstæðing með sama vinningafjölda og parað er í næstu umferð eftir lok hverjar umferðar fyrir sig.

Opin mót þykja erfiðari fyrir þá sem eru á svokölluðum „normaveiðum“ eða eru að reyna að ná sér í áfanga – en til að fá áfanga þarf að ná hagstæðum úrslitum úr ákveðnum fjölda skáka gegn sterkum skákmönnum auk þess sem uppfylla þarf önnur skilyrði.  

Á síðasta ári var áfanga-reglum FIDE breytt á þá leið að nú þarf að skila inn áfanga úr a.m.k. einu opnu móti og ekki dugar lengur að skila inn áföngum eingöngu úr lokuðum mótum.

Ingvar hélt að reglunum hefði kannski verið breytt eftir að ungur bandarískur skákmaður [aðeins 12 ára, 4 mánaða og 25 daga gamall], að nafni Abhimanyu Mishra varð yngsti stórmeistari sögunnar og sló þar með met Rússans [fæddur í Úkraínu] Sergey Karjakin [sem var 12 ára, 7 mánaða og 0 daga gamall þegar hann sló metið]. Ingvar taldi að Rússarnir hafi orðið  eitthvað fúlir, beitt áhrifum sínum, og kvartað til FIDE en sá bandaríski hafði ferðast til Austur-Evrópu og klárað áfangana sína í lokuðu móti hjá einhverjum líklega óvönduðum eða spilltum mótshöldurum.

Um þetta spannst svo umræða um umtalaðasta meinta „svindlmál“ skáksögunnar þar sem ríkjandi heimsmeistari Magnus Carlsen sakaði Hans Niemann um að hafa svindlað gegn sér í Sinquefield-ofurmótinu í St. Louis í Bandaríkjunum á síðasta ári. Carlsen sagði að Niemann hafi gjörsamlega pakkað honum saman í skákinni – en eins og frægt er orðið þá hætti Carlsen í fyrsta sinn á ferlinum í skákmóti eftir að hafa tapað skákinni.

Svindl í skák – grein eftir Kristján Örn frá 2019 (bls. 10 til 12).
Hver vill taka þátt í sporti þar sem úrslit geta ráðist af tölvusvindli?

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila