Forsætisráðherra Svíþjóðar kennir vel efnuðum um eiturlyfja -og ofbeldisvandann í Svíþjóð

Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar

Forsætisráðherra Svíþjóðar Stefan Löfven segir í viðtali við Dagens Nyheter að eiturlyfjaneysla ríks fólks í Djursholms- og Danderyd hverfunum í Stokkhólmi sé ein meginástæðan fyrir vaxandi gengjamyndun og ofbeldi í Svíþjóð. Segir hann eiturlyfjaneyslu efnaðs fólks í þessum hverfum vera þvílíka að stórir glæpahópar lifi alfarið á henni og herji síðan á aðra og efnaminni Svía sem verði fyrir skotárásum og sprengingum á öðrum stöðum í landinu.

Að glæpagengi og innflytjendamafíur t.d. afríkanska Black Axe sem heldur Gautaborg í tröllahöndum eiturlyfja og ofbeldisverka, séu mikill orsakavaldur vaxandi glæpaöldu á undanförnum árum í Svíþjóð vill formaður sænskra sósíaldemókrata og forsætisráðherra Svíþjóðar ekki kannast við.

Þessi ummæli forsætisráðherrans hafa vægast sagt þyrlað upp ryki og mætt harðri gagnrýni og hafa margir lagt orð í belg, bæði stjórnmálamenn, almenningur, leiðarahöfundar og ekki síst fulltrúar Djursholms og Danderyd sem flestum finnst Löfven gera lítið úr bæði eiturlyfja- og ofbeldisvandanum með því að kenna nokkrum vel efnuðum Svíum um allt saman.

Þá eru sænskir sósíaldemókratar úr takt við flokkssystkini sín í Danmörku en forsætisráðherra Danmerkur og foringi danskra sósíaldemókrata Mette Fredriksen lætur nú athuga möguleika á hertu landamæraeftirliti við Svíþjóð til verndar Dönum vegna komu sprengjumanna og morðingja með sænskt ríkisfang yfir sundið til að drepa Dani á heimavelli. Í vikunni handtók danska lögreglann mann frá Svíþjóð sem grunaður er um sprengingu við hús skattayfirvalda í Kaupmannahöfn.

Sprengingar má ekki líða sem hversdagslegan hlut í Danmörku. Við munum aldrei sætta okkur við sprengingar“ segir forsætisráðherra Danmerkur í viðtali við danska útvarpið.

Göran Persson fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar sagði í viðtali í fyrra að innflytjendastefna ríkisstjórnar Svíþjóðar „væri hrikaleg“. Segir hann  það alfarið glatað að Svíþjóð eitt landa skuli flytja inn svona mikið af fólki mest af öllum löndum miðað við höfðatölu og slíkt þýði verri kjör, aukið atvinnu- og húsnæðisleysi. Ekkert dregur úr innflutningi fólks til Svíþjóðar því samkvæmt áætlun Migrationsverket munu rúmlega 300 þúsund innflytjendur (sem samsvarar næstum öllum mannfjölda á Íslandi) koma til Svíþjóðar fram til ársins 2021. Hafa yfir 100 þúsund manns komið árlega á undanförnum árum og eykst hælisleitendastraumurinn frekar en minnkar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila