Þróun og notkun gervigreindar er ör og gríðarleg tækifæri hafa opnast á síðustu árum með aukinni hagnýtingu hennar. Á sama tíma blasa við áskoranir sem opinberir aðilar verða að bregðast við, og hefur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, sem fer með málefni gervigreindar, hafið vinnu við aðgerðaáætlun á sviði gervigreindar.
Fram kemur í tilkynningu að aðgerðaáætlunin byggi á stefnu Íslands um gervigreind sem gefin var út af forsætisráðuneytinu í apríl 2021. Frá útgáfu stefnunnar hefur þróun og hagnýting gervigreindar tekið ýmsum breytingum, bæði í formi tæknilegra og hagnýtra framfara en einnig hafa ýmsar og áður óþekktar áskoranir komið fram sem ber að líta til. Á þessum tíma hafi einnig verið unnið að nýrri gervigreindarlöggjöf á vegum Evrópusambandsins sem búast má við að verði samþykkt á næstu mánuðum. Fram kemur að tekið verði tillit til þessa við mótun aðgerðaáætlunarinnar sem og annarra þátta sem hafa áhrif á framkvæmd stefnu Íslands þegar kemur að málefnum gervigreindar.
Aðgerðir þvert á ráðuneyti
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið mun leiða áframhaldandi stefnumótun og aðgerðir stjórnvalda á því sviði, en lögð verður áhersla á víðtæka nálgun og samráð við önnur ráðuneyti, enda koma viðfangsefni gervigreindar víða við sögu.
Óskað verður eftir upplýsingum frá ráðuneytum og undirstofnunum þeirra um aðgerðir sem þegar eru hafnar eða hefjast í náinni framtíð og styðja við stefnu stjórnvalda. Ráðuneytið mun samhliða því kanna hvar þörf er á frekari aðgerðum til að ná fram settum markmiðum. Hér getur verið um að ræða aðgerðir sem þegar eru hafnar eða eru enn í mótun. Til dæmis má nefna rannsóknir á áhrifum gervigreindar á jafnrétti kynjanna, verkefni sem stuðla að bættu aðgengi að gögnum, stuðning við stafræna þróun ríkisins, verkefni á sviði máltæknilausna og verkefni sem stuðla að gagnrýnni hugsun, læsi eða upplýsingalæsi.