„Tattoo“ valið lag Svíþjóðar í söngvakeppni Eurovision 2023

Úrslitakeppni Tónlistarhátíðarinnar í Svíþjóð fór fram á Friens Arena í Stokkhólmi í laugardaginn 11. mars 2023. Til vinstri sést listi yfir lögin sem kepptu og vann lag Loreen „Tattoo“ með yfirburðum yfir önnur lög en næsta lag á eftir var lag norsku bræðranna Marcus og Martinus „Air.“ Loreen með söngfuglinn, verðlaun Tónlistarhátíðarinnar til hægri á leið til að endurflytja sigurlag hátíðarinnar. 27 þúsund manns mættu á staðinn, milljónir fylgdust með útsendingu í sjónvarpi og öðrum miðlum á þessari stærstu fjölskylduskemmtun Svía (mynd skjáskot SVT).

Eins og við var búist, alla vega á veðmálastofum landsins, þá sigraði lag Loréen, Tattoo, Tónlistarhátíð Svía „Melodifestivalen“ 2023 á Friends Arena í Stokkhólmi í kvöld. 27 þúsund Svíar voru mættir á það, sem oft er sagt vera stærsta fjölskylduhátíð Svíþjóðar, úrslitakeppni Melodívestivalen eða „melló“ eins og Svíar kalla keppnina. Í ár voru bæði dómendur í erlendri dómsnefnd og Svíar sammála um hvaða lag skyldi vinna keppnina. Lagið Tattoo fékk flest atkvæði landsmanna og nær öll hæstu einkunn eða 12 stig erlendu ríkjanna. Vægi erlendu dómnefndarinnar eru 50% og vægi landsmanna eru 50%. Svíar vilja stemma af með erlendu dómnefndinni, hvort lagið eigi góða möguleika á að komast ofarlega, jafnvel vinna Eurovision.

„Ég er svo hamingjusöm og þakklát, núna mun ég kynna Svíþjóð, núna tökum við þetta áfram!“ segir Loreen í viðtali við Aftonbladet í kvöld. Þegar sigurvegarinn var kynntur vildi Loreen fyrst ekki trúa því að hún hefði unnið: „Þetta getur ekki verið rétt“ sagði hún. „Ég er sænska fólkinu svo þakklát, ég lofa að gera mitt besta“ sagði Loreen með Eurovision keppnina í Liverpool í maí í huga. Þetta er í annað skipti sem Loreen vinnur Tónlistarhátíðina í Svíþjóð og fer sem fulltrúi landsins í Eurovision. Það gerði hún síðast árið 2012 með laginu Euphoria sem vann Eurovision í Baku í Axerbajan. Lagið varð gríðarlega vinsælt og mikið spilað í kjölfar keppninnar. Núna vonast margir Svíar til að sagan endurtaki sig með Tattoo. Vinnur Loreen Eurovision í annað skipti verður hún á sama stalli og Johnny Logan sem er sá eini sem hefur heppnast að vinna Eurovision í tvö skipti fram að þessu. Aftonbladet segir að of snemmt sé að spá neitt um sigurlag Eurovision 2023 og nefnir lag Finnlands „Cha cha cha“ með Käärijä sem sterkan keppinaut.

Breytt sviðsmynd í Liverpool: geta ekki lyft 1, 8 tonna þungum skermi yfir höfði Loreen

Líklegast verður að breyta sviðsmynd við flutning lagsins Tattoo í Liverpool, því ekki er talið að þak sýningarhallarinnar, þar sem Eurovision verði haldið, geti borið uppi 1, 8 tonna þungan myndaskerm sem Loreen leggst undir í upphafi lagsins og hefur reyndar yfir höfðinu allt lagið en skerminum er lyft hægt ofar eftir því sem líður á lagið.

Númer tvö: „Air“ með norsku tvíburabræðrunum Marcus og Martinus

Norsku bræðurnir Marcus og Martinus unnu hjörtu Svía og einnig erlendu dómnefndarinnar með laginu Air. Þeir sögðu við Aftonbladet eftir að úrslitin voru kynnt: „Við hefðum helst viljað vinna, en þegar Loreen á í hlut þá er maður mjög ánægður með annað sætið, þetta var frábær reynsla og svo skemmtileg.“ Marcus og Martinus sögðust hafa haft áhyggjur af því, að sænska þjóðin myndi ekki taka þeim með opnum örmun en annað kom greinilega í ljós í úrslitunum: „Við erum svo þakklátir fyrir móttökurnar, Takk fyrir allan stuðninginn.“ Borið hefur á einhverri öfundsýki heima í Noregi yfir því að þeir skuli keppa í sænskri tónlistarkeppni, hvað þá sú tilhugsun að þeir gætu kannski unnið keppnina og orðið fulltrúar Svíþjóðar í sönglagakeppni í samkeppni við Norðmenn. Einnig hafa einhverjir Svíar gert athugasemd við að Norðmenn séu þátttakendur í sænskri keppni.

Hér má sjá Melodifestivalen 2023

Úrslitin:

Listi úrslitakeppninnar á Friends Arena í Stokkhólmi:

1. Loreen: ”Tattoo” 177 stig

2. Marcus & Martinus: ”Air” 138 stig

3. Smash Into Pieces: ”Six feet under” 112 stig

4. Jon Henrik Fjällgren, Arc North featuring Adam Woods: ”Where you are (Sávezan)” 81 stig

5. Theoz: ”Mer av dig” 78 stig

6. Kiana: ”Where did you go” 76 stig

7. Paul Rey: ”Royals” 57 stig

8. Mariette: ”One day” 51 stig

9. Maria Sur: ”Never give up” 47 stig

10. Panetoz: ”On my way” 47 stig

11. Nordman: ”Släpp alla sorger” 44 stig

12. Tone Sekelius: ”Rhythm of my show” 20 stig

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila