Telur sig hafa breiðari stuðning en áður – Getum gert betur í því að ná til fleiri einstaklinga

Guðlaugur Þór Þórðarson loftslags og auðlindaráðherra sem býður sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins segir að hann telji sig finna að hann eigi mun breiðari hóp stuðningsmanna nú en hingað til og sá hópur hafi sent frá sér skýrt ákall um að vilja skerpa á áherslum flokksins og halda í þau gildi sem flokkurinn hafi staðið fyrir. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Guðlaugs í síðdegisútvarpinu í dag en hann var viðmælandi Arnþrúðar Karlsdóttur.

Guðlaugur bendir á að ákallið um að skerpa á áherslum flokksins og það markmið að reyna að ná til sem flestra og verða aftir flokkur sem sé stétt við stétt sé jafnvel enn sterkara eftir að hann tilkynnti um framboð sitt.

„núna eru allir farnir að ræða þessa hluti og sjáðu þessa þrjá góðu frambjóðendur sem gefa kost á sér til embættis ritara, þeir hafa allir tekið upp þessar áherslur, þannig það er mikil eftirspurn eftir því að við séum að vinna í öðru en að vera bara að vinna varnarsigra“segir Guðlaugur.

Hann segir mikilvægt að hafa stigið fram nú því það að vinna inn meira fylgi taki sinn tíma og það sé í raun mjög stutt í næstu kosningar.

„það eru bara 3 ár til kosninga og ef þú ætlar að breyta hlutum þá er erfitt að gera það á mjög skömmum tíma og ef þú ætlar að gera það á einu ári, fara í prófkjör og uppstillingar og allt sem því fylgir fyrir utan það að breyta hlutum þá er það bara mjög skammur tími“segir Guðlaugur.

Að hans mati er gott að fá þrjú ár til þess að vinna í málum flokksins og hefja þá sókn sem þarf

„því þetta er ekki gert eins og hendi sé veifað, þetta er ekkert eins og að stimpla eitthvað skjal, þetta snýst um að nýta mannauðinn í flokknum og fá fólkið með þér í þessi verkefni“

Hann segist vilja vinna að því að ná því fólki sem hefur farið úr flokknum aftur inn í flokkinn auk þess að ná nýju fólki inn í flokkinn.

„við þurfum að líta inná við og athuga hvað við getum gert til þess að ná þessu fólki til baka því staðan er eins og hún er og við getum ekkert litið framhjá því“

Hann segir að hann sjái ekki fyrir sér neinar sérstakar breytingar á ríkisstjórnarsamstarfinu verði hann kjörinn formaður, hann hafi átt gott samstarf við forustumenn hinna stjórnarflokkana auk þess sem málefnasamningur sé í gildi sem unnið verði áfram eftir sem hingað til.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila