Tengir fólk handanheimum með transmiðlun

Transmiðlun er eitt af þeim tækjum sem miðlar nota til þess að tengja fólk við látna ástvini og hefur Guðrún Kristín miðill einmitt sérhæft sig á því sviði en hún hefur mikla reynslu á sviði miðlunar. Í þættinum Miðlun að handan ræddi Anna Kristín miðill við Guðrúnu og fræddu þær hlustendur um hvernig transmiðlun fer fram.

Guðrún segir að í hennar tilfelli fari transmiðlunin á þann hátt að leiðbeinandi hennar sem býr handanheima komi og aðstoði við miðlunina með því að yfirtaka helmings líkama hennar og orka annara anda sem tengjast á hverju sinni nýti sér hinn helminginn en um sé að ræða djúptrans.

Þegar andarnir hafi tekið yfir líkama hennar gerist það að andlitið breytist lítillega sem og röddin og getur andinn sem leiðbeinandinn hefur náð að tengja því rætt við þann sem til Guðrúnar hefur leitað. Leiðbeinandi Guðrúnar heitir Patrik. Í þættinum sagði Guðrún frá konu sem leitaði til hennar en konan hafði misst son sinn og vildi fá tengingu við hann. Á daginn kom að Patrik hafði ákveðna tengingu við konuna og hvetjum við hlustendur til þess að hlusta á þáttinn til þess að heyra nánar af þessu atviki.

En transmiðlun er ekki auðveld fyrir miðla því hún krefst mikillar orku og getur hún því eðli málsins samkvæmt haft áhrif á heilsu miðilsins.

Þegar Guðrún fær til sín fólk sem vill ná sambandi við ástvini notar Guðrún pendúl þegar hún leitar svara frá handanheimum í lok miðilsfundarins en með pendúlnum er hægt að svara já og nei spurningum þeirra sem koma í einkatíma.

Þess má geta að þann 7.júní verður haldinn skyggnilýsingafundur hjá Miðlun að handan í Síðumúla 29. Þar verða miðlarnir Guðrún Kristín, Anna Kristín og Ester Sveinbjarnardóttir með skyggnilýsingar en húsið opnar klukkan 19:30 en fundurinn sjálfur hefst kl.20:00 og kostar aðgangsmiðinn 3000 krónur.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila