Það er mjög mikilvægt að ríkisvaldið og ekki síst félagsmálaráðherra sem leigt hefur til að mynda heilu hótelin undir ólöglega hælisleitendur taki vel utan um Grindvíkinga. Þá verði séð til þess að þeim verði veitt að öllu leyti allt sem þeir þurfa til að geta haldið sínu daglega lífi áfram. Þetta kom fram í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur en gestur hennar var Eyjólfur Ármannsson þingmaður Flokks fólksins.
Eyjólfur segir að hann hafi fagnað því að fólk hefði fengið að fara inn í Grindavík til þess að sækja eigur sínar en öðruvísi hafi verið farið að málum þegar faðir Eyjólfs ætlaði til Eyja eftir gosið á sínum tíma en þá var Eyjólfur þriggja ára.
„þarna fóru skip til þess að sækja fiskafurðir strax eftir gosið til dæmis Hofsjökull og svo skipið Hekla var sent til þess að sækja bifreiðar. Pabbi og fleiri Vestmannaeyingar vildu fara með skipunum til Eyja en þeir voru nánast stöðvaðir með byssustingjum. Pabbi náði að tala við skipstjórann á Heklu sem sýndi þessu skilning og leyfði honum og nokkrum öðrum að koma með í ferðina og þessir menn voru svo í framvarðasveit við að bjarga eignum úr húsunum. Mér finnst mikilvægt að Grindvíkingar séu með í allri ákvarðanatöku þegar kemur að þessum málum“segir Eyjólfur.
Hann segir að ef gos kemur upp í miðjum Grindavíkurbæ sé staðan í raun verri en í gosinu í Eyjum því þar hafi gosið byrjað í um 400 metra fjarlægð frá húsum en í Grindavík liggi sprungan því miður þvert í gegnum miðjan bæinn.
Hlusta má á viðtalið við Eyjólf þar sem hann rifjar upp meðal annars gosið í Eyjum og eftirmála þess í spilaranum hér að neðan.